139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega ekki nálægt því eins svartsýnn og hv. þingmaður. Ég tel að á margan hátt hafi hlutirnir verið að mjakast í rétta átt hjá okkur. Vissulega hefur ýmislegt gengið hægar en við hefðum gjarnan viljað. Við værum auðvitað öll glöð ef kreppunni væri bara lokið, þetta væri allt búið, ef hægt hefði verið að laga þetta allt saman og kippa þessu í liðinn á einu og hálfu, tveimur árum. En var það einhvern tímann raunhæft? Lá það ekki alltaf fyrir að þetta yrði löng og grýtt leið út úr erfiðleikunum sem við erum að feta okkur sem þjóð og það yrði bara að takast á við það dag frá degi, mánuð frá mánuði og missiri frá missiri? Þetta er svoleiðis barátta, svoleiðis slagur. Þannig hefur þetta alls staðar verið. Kreppum lýkur ekki bara allt í einu einn góðan veðurdag. Það er mikil úrvinnsla úr öllum þessum hlutum sem menn eru að takast á við og það snýr ekki bara að löggjafanum heldur öllum þeim sem eru að glíma við erfiðleikana hver á sínum vettvangi, í rekstri sinna fyrirtækja eða afkomu síns heimilis. Þetta er ekki svoleiðis viðfangsefni að hægt sé að raða þessu upp og af því að ekki sé búið að leysa þetta allt saman og kippa öllu í liðinn hljóti það að vera einhverjum að kenna, ónýtri ríkisstjórn. Ég segi bara, með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni og flokki hans: Ég á eftir að sjá að þetta hefði gengið betur þó að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið við völd hér síðastliðið eitt og hálft ár.