139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að biðjast undan því fyrir fram að vera kallaður svartsýnismaður þegar við förum orðrétt með það, og ég hef gert það í ræðum mínum, sem frumvarpið kveður á um. Hvað segir í þessu frumvarpi? Jú, það á að skerða barnabætur, það á að skerða vaxtabætur og grunnfjárhæðir almannatrygginga verða ekki verðbættar, þær verða skertar líka.

Svo vogar hæstv. fjármálaráðherra sér að segja rétt áðan að kaupmáttarfallið hafi stöðvast. Hvað þýðir þetta frumvarp? Frumvarpið þýðir akkúrat það fyrir barnafjölskyldur, fólk á húsaleigumarkaði, öryrkja og eldri borgara, ef þetta verður að veruleika, að kjör þessara hópa munu skerðast á næsta ári. Hvað varð um öll fögru fyrirheit norrænu velferðarstjórnarinnar í aðdraganda síðustu kosninga um að þetta væru hóparnir sem menn yrðu að hlífa? Málið er að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi hæstv. ráðherra, sérstaklega gagnvart þeim hópum sem ég nefndi hér á undan.