139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að almenn skilyrði atvinnulífs eins og þau snúa að sköttum og stjórnvöldum hér á landi séu enn bærilega samkeppnisfær. Það þurfa þau að sjálfsögðu að vera. Það er okkur öllum ljóst. Kannski þurfum við sem lítil þjóð og lítill markaður að reikna með því að þurfa að gera svona að breyttu breytanda til þess að standa okkur í samkeppninni. Því verða ekki fundin nein rök eða nein stoð að skattalegt umhverfi t.d. fyrirtækja hér sé óhagstætt. Það er þvert á móti. Það er enn hagstætt í öllum venjulegum alþjóðlegum samanburði. Skattkerfið var tekið út, t.d. af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fékk þar tiltölulega góða einkunn. Svipað hefur það fengið hjá OECD og það alveg eins eftir breytingarnar sem á því hafa verið gerðar. (Gripið fram í.)

Varðandi framtíðarstefnumótunina mun sú vinna halda áfram. Áfangaskýrslu var skilað í haust. Afrakstur hennar mun koma í bandormi II þar sem verða m.a. gerðar lagfæringar á ákveðnum tæknilegum atriðum varðandi skattlagningu fyrirtækja þar sem við í samstarfi við Samtök atvinnulífsins höfum verið að skoða og munum halda áfram að skoða. Það skortir ekkert upp á viljann af okkar hálfu að fara yfir það og hlusta á vel rökstudd og ígrunduð sjónarmið, en það er ekki þannig að Samtök atvinnulífsins eigi að taka hinar pólitísku ákvarðanir t.d. um skatthlutföll. Það verður ekki selt úti í bæ.

Þetta starf mun halda áfram. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gagnleg úttekt á (Forseti hringir.) skattkerfinu. Við byggjum þetta á ráðgjöf og samstarfi við alþjóðlega aðila (Forseti hringir.) sem eru okkur innan handar í þeim efnum.