139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég geri mér fulla grein fyrir því og sagði það í fyrra andsvari mínu að ég ætlaðist ekki til að ráðherrann gæfi beinar fyrirspurnir heldur var ég að kalla eftir sjónarmiðum hæstv. ráðherra, hvað þetta mundi þýða í uppbyggingu fyrir atvinnulífið í heild sinni. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir að honum finnist þetta harkalegt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að þetta er gert í ljósi þess að vaxtaálag í heiminum hefur farið lækkandi eins og hæstv. fjármálaráðherra er vel kunnugt á niðurstöðu um rekstur ríkissjóðs. Finnst hæstv. ráðherra koma til greina að menn mundu setja hámark í lög frá Alþingi hvað vaxtaálagið megi vera? Kemur það til greina til þess að geta stoppað svona? Ég lít þannig á að viðkomandi fjármálafyrirtæki hirði allt rekstrarfé út úr fyrirtækinu til þess að fjármagna eigin rekstrarkostnað, í staðinn fyrir að hugsa um heildarhagsmunina.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar að lokum af því hann svaraði mér að honum hefði ekki verið kunnugt um það eða vitað af því. Hann (Forseti hringir.) skautaði í kringum ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Gerði hæstv. fjármálaráðherra sér grein fyrir því að ákvörðunin mundi kosta ríkissjóð 700 millj. kr.?