139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við síðustu spurningunni er nei, enda er ég alls ekkert viss um að hún eigi eftir að gera það. Ég held að það sé ósannað að þessar afskriftir einar komi eingöngu til vegna þess sem þarna var á ferðinni.

Varðandi lánskjörin. Maður heyrir af því að bankar eru í tengslum við það að verið er að umbreyta lánskjörum úr erlendri mynt í innlenda o.s.frv. Viðskiptavinum er boðið upp á ný kjör og auðvitað hærri vexti ef farið er í innlenda mynt. Vandinn er sá að menn gerðu út á þessa lágu vexti og gátu á meðan þeir höfðu aðgang að erlendu fjármagni endurfjármagnað sig á sömu kjörum. Nú kemur það mönnum í koll að hafa gert út á þetta með þessum hætti. Það eru sjálfsagt ýmsir í vanda vegna þessa ef þeir ná ekki að endurfjármagna styttri lán sem voru á þá hliðina til þess að geta áfram boðið upp á þessi kjör. Það segir mönnum í hnotskurn hversu ógæfuleg þessi sigling var og áhættusöm. Að maður tali nú ekki um hápunkt hennar þegar bankar fjármagnaðir til skamms tíma buðu þessi lán út til langs (Forseti hringir.) tíma hér innan lands í erlendri mynt og enga tryggingu fyrir því að hafa að þeir gætu sjálfir á sína hlið haldið sömu lánskjörum á móti. (Forseti hringir.) Nú er þetta að koma mönnum í koll.