139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Ég henti þeirri hugmynd á loft hér í þessum sal í júníbyrjun á þessu ári að þetta gæti verið ein af þeim matarholum sem hyggilegt væri að sækja í í ljósi þeirrar stöðu á ríkisfjármálum sem nefnd hefur verið í dag og við þekkjum öll.

Ég hef verið frekar fylgjandi því að laga útgjöldin að þeim tekjum sem hægt er að nálgast fyrir hönd ríkisins. Hér er á ferð ein tekjuöflunarleið. Eins og fram kom í máli ráðherra mætti jafnvel kalla þennan bankaskatt bankaábyrgðargjald fyrir ríkisábyrgðina á innstæðunum en með tilheyrandi ávinningi fyrir bankakerfið.

Við sáum það að á síðasta ári, árið 2009, var hagnaður bankanna umtalsverður, rúmir 50 milljarðar kr. af arðsemi eigin fjár, allt að 30%, á sama tíma og ríkið horfir fram á gríðarlegan niðurskurð í þjónustu við aldraða, fatlaða og skerðingu á velferðarbótum. Þessa sögu þekkjum við alla. Við þurfum að finna allar matarholur og hér er ein þeirra.