139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

fjárveiting til meðferðarheimilis í Árbót.

[15:09]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Fréttir af því hvernig staðið var að fjárveitingum til meðferðarheimilisins Árbótar vekja nokkra furðu. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þau samskipti sem hafa verið milli Barnaverndarstofu og félagsmálaráðuneytisins og ég vil líka taka fram að sú starfsemi sem hér er rekin er afar mikilvæg og það starf sem unnið er á meðferðarheimilum er gríðarlega mikilvægt fyrir þau börn sem í vandræðum lenda.

Ég geri hins vegar alvarlegar athugasemdir við aðkomu hæstv. fjármálaráðherra að þessu máli. Fer hann að því er virðist með tölvubréfi nokkuð ákveðið inn á verksvið annars ráðherra, hótar að setja málaflokk í gíslingu og knýr þannig fram niðurstöðu í málinu. Eins og segir, með leyfi forseta, í þessu tölvubréfi sem nú er komið til fjölmiðla:

„Ef hugmyndir eru um að auka umsvif sambærilegrar starfsemi annars staðar þá eru að mínu mati vægast sagt veikar forsendur fyrir slíku ef fjárfesting til uppbyggingar í Árbót eiga þá að verða ónotaðar á móti. […] Ég mun því hvorki samþykkja aukafjárveitingar né tilfærslu fjármuna eftir því sem slíkt þarf míns samþykkis nema betur verði farið ofan í saumana á forsendum þessa alls.“

Vegna þessa langar mig að spyrja fjármálaráðherra nokkurra spurninga:

1. Eru þetta vinnubrögð sem hæstv. fjármálaráðherra finnst sæmandi?

2. Var af þessu tilefni leitað álits ríkislögmanns um málið og þær afleiðingar sem þetta gæti hugsanlega haft á stöðu ríkissjóðs?

3. Hvað varð um þau fyrirheit sem hv. þm. Atli Gíslason, félagi hæstv. fjármálaráðherra í Vinstri grænum, hafði uppi um stór orð í þingmannanefnd? Ef allir þingmenn, 63:0, samþykktu að gera þyrfti breytingar á vinnubrögðum í þinginu, eru þessi vinnubrögð sem hér eru viðhöfð í samræmi við það?