139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

fjárveiting til meðferðarheimilis í Árbót.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál er að sjálfsögðu á forræði félagsmálaráðuneytisins og það var í þess höndum að taka við málinu eftir að Barnaverndarstofu og rekstraraðilum heimilisins mistókst að ná samkomulagi um lyktir mála. Barnaverndarstofa óskaði þá sjálf eftir því að félagsmálaráðuneytið yfirtæki það mál og reyndi að leiða það til lykta. Það gerði félagsmálaráðuneytið og það var að tillögu embættismanna og lögfræðinga þess sem gengið var til samkomulags við rekstraraðilana um uppgjör á málinu og í einu og öllu farið að því sem eðlilegt var. Það er þannig með þessa samninga að í þeim er ekki ótvírætt uppsagnarákvæði, heldur endurskoðunarákvæði. Þetta viðurkenndi Barnaverndarstofa í reynd með því að ganga til viðræðna við rekstraraðilana í framhaldi af því að hafa tilkynnt þeim um uppsögn í lok árs.

Það náðust hins vegar ekki samningar og þá sagði Barnaverndarstofa sig frá því og vísaði því yfir til félagsmálaráðuneytisins sem eftir það fór með forræði á málinu og lagði síðan fram tillögu að lausn og tillögu að samningi sem fjármálaráðuneytið féllst á og staðfesti fyrir sína hönd.

Í kjölfarið var minnisblaði dreift í ríkisstjórn sem samþykkti að ljúka málinu með þessum hætti og óska eftir fjárheimild í fjáraukalögum hvað var og gert. Þetta er búið að liggja fyrir á borðum þingmanna síðan í októberbyrjun. Það er búið að fara nákvæmlega eðlilega með þetta mál og í samræmi við það sem aðstæður buðu upp á úr því að Barnaverndarstofa náði ekki samkomulagi við rekstraraðilana og bað félagsmálaráðuneytið ásjár í þeim efnum. Það hefur verið farið að þeim tillögum sem embættismenn og lögfræðingar þar lögðu upp til lausnar málsins. Heimilið var í fullum rekstri allt til loka uppsagnarfrestsins þannig að augljóst var að ekki var annað hægt en að ljúka málinu með einhverjum samningi og koma til móts við rekstraraðilana vegna þess kostnaðar sem þeir sátu uppi með. Ég tel að eðlilega hafi verið unnið að þessu máli á allan hátt og í samræmi við lögheimildir og góða stjórnsýsluvenju.

Tölvupóstur sá sem ég ritaði í janúarmánuði var hins vegar vegna þess að við höfðum áhyggjur (Forseti hringir.) af því í fjármálaráðuneytinu að ef illa tækist til í þessu máli gæti orðið um stóraukinn viðbótarkostnað að ræða sem við vildum þá sjá fagleg rök fyrir áður en lengra væri gengið. Er það ekki það sem (Forseti hringir.) þetta snýst um, að gæta hagsmuna ríkisins í svona málum? Ég hélt það. (Gripið fram í.)