139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vinnumarkaðsmál.

[15:36]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að viðræðurnar við stjórnarandstöðuna eru hvorki upphaf né endir að lausnum í þessu samfélagi en það getur verið gríðarlega gott innlegg eftir sem áður að leita til allra aðila sem hafa hugmyndir fram að færa.

Ég svaraði kannski ekki alveg nógu skýrt, ég hef fylgst með því að formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa átt viðræður bæði við Samtök atvinnulífsins og ASÍ, og hæstv. fjármálaráðherra hefur upplýst mig að fyrirhugaður er formlegur fundur með samtökum vinnumarkaðarins síðar í vikunni um þessi sömu mál. Ég hef fylgst með þessum viðræðum af hliðarlínunni, eins og ég segi, þetta hefur meira verið á „formannalevel“ ef hægt er að kalla það það, en ég tek undir það sem ég held að sé undirliggjandi í spurningu hv. þingmanns, það er gríðarlega mikilvægt að við reynum að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar. Við megum ekki gera lítið úr því sem er í gangi en það þarf meira til og það þarf að horfa til allra þátta eins og ég kom að áðan. (Forseti hringir.) Það hafa verið stór áform um vegaframkvæmdir, m.a. í samstarfi við þessa aðila, og það er í fullum gangi og ýmis önnur verkefni sem ég fæ því miður ekki tíma til að telja upp hér.