139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er á dagskrá fyrirspurnatími þingmanna til ráðherra. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem hann hafði tvö tækifæri til að svara. Hæstv. fjármálaráðherra kom sér undan því að svara í bæði skiptin. Ég beini því enn á ný til virðulegs forseta því að þessir fyrirspurnatímar eru algjörlega tilgangslausir ef það á að vera svo að hér komi ráðherrar upp og geti ekki svarað þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar. (Gripið fram í: Vilja ekki.) Þeir hvorki vilja það né jafnvel geta og svo er leyndarhjúpurinn svo mikill yfir þessari hæstv. ríkisstjórn að það er greinilega ekki hægt að bera það á borð fyrir þjóðina hvað hún sýslar.

Fyrirspurn mín var einföld: Er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að fara fram á það með þessari innspýtingu ríkisins upp á 35–40 milljarða kr. að það sé byrjunin á því að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur? Þetta er já- eða nei-spurning og meðan fjármálaráðherra svarar þeirri spurningu hvorki með jái né neii (Forseti hringir.) lít ég svo á að þögn sé sama og samþykki.