139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

skattaleg staða frjálsra félagasamtaka.

140. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Frjáls félagasamtök sinna margvíslegu hlutverki við að uppfræða almenning, halda á lofti málstað einstakra þjóðfélagshópa, efla menningar- og listalíf eða inna af hendi samfélagsþjónustu. Þau starfa á grundvelli ákveðinna hugsjóna og eru ekki á markaði í hagnaðarskyni.

Í fyrirtækjaskrá Hagstofunnar eru í dag skráð um 20 þús. félagasamtök í landinu. Dæmi um frjáls félagasamtök sem gegna mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar eru Rauði kross Íslands, Krabbameinsfélagið, Heimili og skóli, Hjálparstarf kirkjunnar sem og kvenfélögin úti um allt land og björgunarsveitirnar.

Á grundvelli þessa mikilvæga samfélagslega hlutverks frjálsra félagasamtaka hafa þau lengi notið ýmissa undanþágna frá skattgreiðslum hér á landi, þá sérstaklega frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts, enda mætti gera ráð fyrir að opinberir aðilar þyrftu sjálfir að sinna fleiri verkefnum ef félagasamtök væru ekki fær um að sinna þeim.

Samkvæmt skýrslu hagfræðingsins Jónasar Guðmundssonar um skattumhverfi félagasamtaka á Íslandi og í öðrum löndum með sérstöku tilliti til góðgerðasamtaka frá 2004 njóta íslensk félagasamtök ekki undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts og erfðafjárskatts eins og algengt er í samanburðarlöndunum. Þau eiga heldur ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum nema í einstaka tilfellum. Enn stærri munur felst í því að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum sínum eins og almennt er heimilt í löndum Evrópu og Ameríku.

Samdráttur í íslensku efnahagslífi hefur sannarlega komið við fjárhag frjálsra félagasamtaka. Framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum hafa dregist umtalsvert saman auk þess sem ríki og sveitarfélög hafa minna getað stutt við starfsemi þeirra. Á sama tíma hefur álag á ýmis góðgerðasamtök aukist mikið eins og fréttir í fjölmiðlum bera vott um.

Með breyttum skattareglum, þá sérstaklega hvað varðar góðgerðafélög og líknarfélög, væri hægt að bæta starfsumhverfi þeirra umtalsvert. Starfsemi þeirra mundi eflast og þau yrðu betur í stakk búin til að taka við slakanum frá ríki og sveitarfélögum við þessar erfiðu efnahagsaðstæður.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra tiltölulega einfaldrar spurningar en það er oft þannig að þótt þær séu einfaldar geta þær verið flóknar: Er ætlunin að bæta skattalega stöðu frjálsra félagasamtaka?