139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að kannski væri ástæða til að kalla hæstv. fjármálaráðherra aftur inn í þingsalinn þannig að hann mundi alla vega hlusta á upphafið að þessari fyrirspurn. Þetta er nefnilega dæmi um það hvar frjáls félagasamtök hafa einmitt verið að taka á sig kostnað, styðja við opinberar stofnanir og tryggja að ríkið þurfi ekki að leggja í jafnmikinn kostnað og ella.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir um 4,7 milljarða kr. niðurskurði og mikilli tilfærslu á heilbrigðisþjónustu frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að draga úr starfsemi sjúkrasviða heilbrigðisstofnana og loka þeim jafnvel í einhverjum tilvikum. Áherslan á fyrst og fremst að vera á heilsugæsluna.

Við höfum séð það í þeim harkalegu viðbrögðum sem komið hafa fram hjá fólki um allt land hversu mikilvægar þessar heilbrigðisstofnanir eru fyrir íbúana. Þær eru undirstaða fyrir öryggi, lífskjör, búsetuskilyrði og atvinnutækifæri íbúa á landsbyggðinni. Þetta hlutverk þeirra hefur svo sannarlega endurspeglast í þeirri velvild sem stofnanirnar hafa notið í nærsamfélögum sínum.

Ég vil sem dæmi nefna Heilbrigðisstofnun Hvammstanga. Hollvinasamtök hennar hafa á árabilinu 2006–2008 gefið gjafir að verðmæti 15 millj. kr., allt frá sjúkrarúmum yfir í súrefnissíur. Á hálfrar aldar afmæli Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað var spítalanum gefið fullkomið ómskoðunartæki og rafdrifið sjúkrarúm.

Ég get líka nefnt Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Á árinu 2008 bárust stofnuninni m.a. gjafir upp á 3,2 milljónir frá Sambandi sunnlenskra kvenna til kaupa á sjúkrarúmum. Kvenfélagið á Eyrarbakka gaf fæðingardeildinni samþykkt súrefnismettunar-, blóðþrýstings- og hitamælatæki að verðmæti 515 þúsund. Alls voru stofnuninni gefnar gjafir að verðmæti 18,2 millj. kr. á árinu.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fékk frá Lionsklúbbnum 1 millj. kr. til kaupa á nýju sneiðmyndatæki.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur á síðustu tveimur árum fengið um 14 millj. kr. frá Kvenfélaginu Líkn. Nú nýlega var kvenfélagið að gefa þeim öndunarvél, blóðþrýstingsmæli fyrir nýbura og nýjan bekk í slysamóttöku.

Því hefur jafnvel verið haldið fram að án þessa mikla stuðnings heimamanna væri varla að finna rúm hvað þá tæki á þessum stofnunum.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvað ætlunin sé að gera við tæki og búnað sem frjáls félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki hafa gefið minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir að sjúkrasvið þessara stofnana verði nær lögð niður.