139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

raforkuverð.

130. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því að jafna raforkuverð á landsvæðum þar sem aðgangur er að heitu vatni til húshitunar og á svæðum þar sem hús eru hituð með raforku.

Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú að um 13 þúsund húseignir greiða margfalt hærri raforkuverðsreikninga en þau heimili sem hafa aðgang að heitu vatni. Svo við setjum það í eitthvert samhengi er talið að að meðaltali borgi þessi 13 þúsund heimili 415 þús. kr. á ári með niðurgreiðslum í raforkukostnað á meðan hvert heimili, til að mynda hjá Orkuveitu Reykjavíkur, borgar 215 þúsund á ári. Munurinn er því meira en tvöfaldur þegar kemur að greiðslum hjá þeim 13 þúsund heimilum sem þurfa að búa við þessa erfiðu stöðu.

Að undanförnum árum hefur hæstv. ráðherra talað mikið fyrir því að við þurfum að jafna lífsgæðin í landinu. Hún er í stjórnmálaflokki sem kennir sig við jöfnuð, en í kjölfar niðurskurðar á niðurgreiðslum til húshitunar hefur reikningur þessara 13 þúsund heimila sem 36 þúsund manns búa á hækkað hlutfallslega meira en hjá þeim heimilum sem búa á svæðum sem hafa aðgengi að heitu vatni. Þess vegna er mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur til framtíðar litið í málum þeirra heimila sem ekki hafa aðgang að heitu vatni. Á enn frekar að auka muninn og þarf fólk á þessum svæðum að greiða hlutfallslega hærri reikninga en aðrir landsmenn? Það samrýmist ekki þeirri hugmyndafræði að við viljum búa öllum landsmönnum, sama hvar þeir búa, jöfn búsetuskilyrði.

Í ofanálag horfum við upp á að verið er að hækka enn frekar flutningskostnað á landsbyggðinni, verið er að hækka verð á olíu og bensíni enn meira. Það mun skekkja samkeppnisstöðu þeirra byggðarlaga sem þurfa nauðsynlega á öruggum samgöngum að halda og þurfa þar af leiðandi á eldsneyti að halda. Í öðru lagi leggur hæstv. ríkisstjórn fram breytingar á vörugjöldum þannig að þau landsvæði sem þurfa nauðsynlega á fjórhjóladrifsbílum að halda munu borga mun hærri skatta, tolla og gjöld af kaupum af þeim bifreiðum en á þeim stöðum þar sem menn geta verið á smábílum, en eins og við þekkjum er það ekki hægt allt árið um kring á mörgum stöðum vítt og breitt um landið.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin að setja af stað vinnu, starfshóp sem muni marka stefnu til framtíðar til að jafna þann gríðarlega aðstöðumun sem er á milli þeirra 36 þúsund Íslendinga sem ekki hafa aðgang að heitu vatni, og hinna. Getum við ekki jafnað leikinn eitthvað hvað þessi mál varðar?