139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

olíuleit á Drekasvæði.

150. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra núna um olíuleit á Drekasvæði, nánar til tekið: Hver er staða mála vegna olíuleitar á Drekasvæðinu? Hér er um stórmál að ræða fyrir Norðausturland en ekki hvað síst fyrir íslenska þjóð. Ef við náum að koma böndum á og finna miklar olíu- og gasauðlindir úti fyrir norðausturhorni landsins mun það skapa okkur Íslendingum gríðarlega fjármuni á komandi árum og áratugum. Þess vegna er eðlilegt að hæstv. ráðherra sé inntur eftir því hver staða þessara mála. Við munum að í fyrra sögðu erlendir aðilar sig frá þessum verkefnum og sögðu að það væri sérstaklega vegna þess að það væri mjög óhagstætt skattumhverfi hér á landi.

Nú hafa komið fram miklar vísbendingar að undanförnu um að það sé raunhæfur möguleiki að þarna séu auðlindir í vinnanlegu magni. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hver eru næstu skref íslenskra stjórnvalda í því að koma á fót vinnu við að rannsaka þetta svæði og vonandi svo í framhaldinu að nýta þær auðlindir sem þarna eru hugsanlega?

Það er svo skemmtilegt að á þessum degi kemur það fram á visir.is að nú hafa norsk stjórnvöld ákveðið að friðlýsa Jan Mayen. Það kemur inn í þá vinnu sem sveitarfélög á norðausturhorni hafa unnið að er snertir uppbyggingu stórrar hafnar er snertir þennan útveg.

Mig langar að vitna í þessa frétt, með leyfi frú forseta:

„Olíuleitarfélög sem hyggjast freista gæfunnar á Jan Mayen hryggnum munu því væntanlega ekki hafa annan kost betri en íslenskar hafnir. Þannig gæti friðlýsingin leitt til þess að íslenskar hafnir þurfi ekki aðeins að þjónusta olíuleit á íslenska hluta hryggjarins, sem Íslendingar hafa nefnt Drekasvæðið, heldur einnig að þjónusta leitina á norska hlutanum.“

Þetta sýnir okkur náttúrlega hversu gríðarleg tækifæri við höfum á þessu sviði, jafnvel þó að við fyndum ekki olíuauðlind á Drekasvæðinu. En ég er bjartsýnn á það og hvet hæstv. ráðherra til að huga sérstaklega að skattalegu umhverfi hér. Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hún hafi beitt sér fyrir samstarfi við Norðmenn á þessu sviði. Norðmenn hafa mjög gott orð á sér þegar kemur að olíuleit og umgengni við þessa náttúruauðlind. Þeir hafa unnið að þessum málum í áratugi og við Íslendingar þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið, hvort sem það er útrás í efnahagslífi eða fjármálaþjónustu. Ég held að við ættum að leita okkur ráðgjafar þegar kemur að þessum málum og þess vegna finnst mér mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur hér á vettvangi þingsins um hvað er að gerast í þessu mikilvæga máli.