139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

olíuleit á Drekasvæði.

150. mál
[16:35]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur með afar undarlega fullyrðingu, að honum finnist hlutirnir ganga hægt í þessum efnum. (Gripið fram í.) Í fyrsta lagi fór ég yfir það áðan að við opnum aftur fyrir útboð 1. ágúst næstkomandi. (BJJ: Það hefði átt að gera það fyrr.) Það er ekki ár í það. Á meðan ljúkum við yfirferð yfir skattalegu hlið málanna. Á meðan vinnum við að öryggismálunum með Norðmönnum og á meðan vinnum við að rannsóknaþættinum með þeim líka. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er langur vegur frá því að Norðmenn séu að taka fram úr okkur í þessu efni, það er langur vegur frá því. Staðreyndin er sú að við erum að auka samstarfið og þeir, eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan, eru að koma inn í rannsóknirnar með okkur þar sem við höfum aldeilis leitt vagninn.

Norðmenn eru auðvitað gríðarlega reynslurík olíuþjóð en við erum algerir nýgræðingar á þessu sviði og þess vegna er gott að það haldist í hendur sem Norðmenn gera þarna og það sem við ætlum að gera. Það hjálpar okkur í næsta útboði, tel ég, að Norðmenn eru að setja svona skýran fókus á þetta svæði, það hjálpar okkur í útboði okkar í ágúst næstkomandi. Það eru gríðarleg tækifæri í því.

Ég tel ekki að við eigum að semja við Norðmenn um að sjá um þetta fyrir okkur. Við erum með afar hagstæða samninga við Norðmenn um tekjur sem þeir fá af sínum hluta svæðisins eða sín megin við markalínuna, þar eru ákveðnir reitir sem mig minnir að við getum verið fá allt upp í 25% af tekjum svæðisins. Það er ákveðin slík skipting í gangi. Ég held að við eigum að fara þá leið sem við höfum markað, þ.e. að bjóða út leitar- og vinnsluleyfin í ágúst næstkomandi. Ég tel að áhuginn hljóti að fara að glæðast aftur. Ég er afar bjartsýn á framtíðarolíuvinnslu Íslendinga sem tengist Drekavæðinu og tel að við eigum eftir að sjá hana (Forseti hringir.) verða að veruleika og jafnvel í okkar tíð sem stjórnmálamenn á þingi.