139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

neyslustaðall/neysluviðmið.

127. mál
[16:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að sé full ástæða til að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir það hve fast hún hefur fylgt málinu eftir á þinginu. Sannarlega get ég tekið undir með henni að nauðsynlegt er að hafa slíkan neyslustaðal eða neysluviðmið og vitnaði hv. þingmaður í það að ég hef barist lengi fyrir því að slíkur grunnur væri til staðar. Get ég tekið undir með henni að það er ótrúlegt hvað hefur verið mikil tregða í þessu og hvað þetta hefur tekið langan tíma.

Ég get líka tekið undir með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að ef slíkur neyslugrunnur er til staðar, sem vonandi stefnir í, verði hann uppfærður reglulega.

Það eru, eins og hv. þingmaður nefndi, mörg neysluviðmið í gangi eftir því hvað á í hlut; Lánasjóður íslenskra námsmanna, almannatryggingakerfið, bótakerfið, Íbúðalánasjóður, umboðsmaður skuldara o.s.frv. Það er alveg ljóst að neyslugrunnurinn sem umboðsmaður skuldara byggir á er knappur og í útreikningunum sem við höfum miðað við, þegar við höfum skoðað skuldavanda heimilanna, hefur grunnurinn verið hækkaður upp um bæði 50% í einni hugmynd sem hefur verið uppi og í 100% í annarri. Það er nauðsynlegt að gera það vegna þess að grunnur umboðsmanns skuldara byggir á því að viðkomandi nota hann, eða umboðsmaður skuldara hjá viðkomandi einstaklingum, til stutts tíma.

Við skulum vona að þetta gangi eftir og verði tilbúið í desembermánuði. Ég vona svo sannarlega að ekki verði seinkun á því. Síðan verður farið í það á grundvelli skilgreiningar (Forseti hringir.) á neysluviðmiði að útfæra gerð lágmarksframfærsluviðmiðs sem er nauðsynlegt og löngu tímabært að sé til staðar á Íslandi eins og hjá öðrum þjóðum, a.m.k. á Norðurlöndum.