139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

Lánasjóður íslenskra námsmanna og ófjárráða háskólanemar.

169. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það hefur orðið mikil þróun í menntakerfi landsins á undanförnum árum. Miklar breytingar hafa orðið til þess að auka valfrelsi einstaklinganna og auka möguleika ungra einstaklinga að ljúka stúdentsprófi fyrr en áður. Nú er svo komið að þessir ungu námsmenn eru að hefja nám og hafa hafið nám við Háskóla Íslands án þess að hafa náð 18 ára aldri. Þeir uppfylla því ekki skilyrði sem Lánasjóður íslenskra námsmanna setur fyrir lánveitingum. Þetta veldur einstaklingum vandræðum sem ekki hafa tök á því að fjármagna námið að fullu leyti án aðstoðar. Ég beindi fyrirspurn til formanns menntamálanefndar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, í júní sl. hvort stæði til að breyta reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að koma til móts við þennan hóp sem fer væntanlega stækkandi.

Samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins er skilyrði fyrir aðstoð frá LÍN að viðkomandi sé fjárráða. Það er því miður þannig að það eiga ekki allir á þessum aldri vel stæða foreldra eða aðstandendur sem geta framfleytt þeim í námi. Þess vegna tel ég mikilvægt að menntamálaráðherra beiti sér fyrir því að reglurnar verði endurskoðaðar. Ég vonast til þess að þegar sé hafin vinna í kjölfar fyrirspurnarinnar sem ég sendi hv. þáverandi formanni menntamálanefndar.

Þess vegna legg ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra til að kanna hvort ráðherra sé kunnugt um að verið sé að breyta úthlutunarreglum sjóðsins að þessu leyti og þá jafnframt hvaða afstöðu hæstv. ráðherra hefur til málsins.