139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

Lánasjóður íslenskra námsmanna og ófjárráða háskólanemar.

169. mál
[16:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málinu. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að hér hafa aðstæður breyst þannig að nemendur geta farið hraðar í gegnum framhaldsskóla, lokið stúdentsprófi fyrr og hafið háskólanám fyrr. Á sama tíma hefur sjálfræðisaldur verið hækkaður í 18 ár, þannig að á hinum endanum hefur þróunin í raun og veru orðið sú að skipting milli barna upp að 18 ára aldri og fullorðinna yfir 18 ára aldri hefur verið styrkt í sessi.

Mál sem þetta komst í fréttir í sumar og mig minnir að fyrirspurn hv. þingmanns hafi tengst þeirri frétt. Þá skoðuðum við hvaða möguleikar væru fyrir hendi í styrktarumhverfi námsmanna. Það liggur fyrir að Lánasjóður íslenskra námsmanna sem veitir námsmönnum lán byggir á þeirri grunnforsendu að námsmenn séu fjárráða og fjárræði öðlast menn við 18 ára aldur. Fram að því eru þeir háðir forsjá foreldra sinna eða annarra lögráðenda.

Ef við kysum að breyta reglum sjóðsins þyrftum við að breyta lögum um sjóðinn frá 1992. Samkvæmt þeim er óheimilt að veita einstaklingum sem ekki eru orðnir fjárráða fyrirgreiðslu hjá sjóðnum. Það kallar á frekari spurningar um lánveitingar í kerfinu. Ráðgjafar sem við höfum fengið telja að þetta geti haft víðtækari áhrif en eingöngu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þetta snúi almennt að lánveitingum til fólks sem er undir aldri.

Ég skoðaði samhliða þessu jöfnunarsjóð námsmanna sem hefur veitt námsstyrki til nemenda sem þurfa að dvelja fjarri lögheimili sínu og fjölskyldu. Sjóðurinn er miðaður við nám á framhaldsskólastigi. Lögin um hann eru frá 2003. Þau einskorðast eingöngu við framhaldsskólanám sem er stundað hér á landi. Jöfnunarsjóðurinn hefur því ekki getað veitt nemendum yngri en 18 ára sem sækja háskólanám styrki. Þar gætum við hins vegar breytt lögum án þess að það hefði víðtækari fordæmisgefandi áhrif.

Þessi skoðun er núna í gangi hjá ráðuneytinu. Ég ætla ekki að lofa neinu um það hvernig henni lyktar. Þar þurfum við að taka inn í reikninginn þennan hóp sem er ekki stór enn þá. Hópur námsmanna í háskólanámi sem eru ófjárráða gæti stækkað. Hvort fordæmisgefandi er að fara út í lánveitingar og hvort hugsanlega er hægt að sjá fyrir sér flokk hjá jöfnunarsjóði fyrir þessa námsmenn og hvernig spilar það þá inn í jafnræðisreglu gagnvart eldri námsmönnum sem taka lán fyrir sínu námi.

Það eru fjölmörg atriði sem enn á eftir að svara, en sú skoðun er í gangi í ráðuneytinu.