139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar utan höfuðborgarsvæðisins.

129. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Nýlega þegar við þingmenn fórum um kjördæmi okkar, ég kem úr Norðausturkjördæmi, var áberandi á fundum með sveitarstjórnum vítt og breitt í því víðfeðma kjördæmi að þær höfðu áhyggjur af þjónustu Vegagerðarinnar þegar kemur að snjómokstri að vetrum. Nú veit hæstv. samgönguráðherra trúlega að veður geta verið válynd hér á landi. Sú staðreynd að Vegagerðin ákvað í fyrra í ljósi niðurskurðar fjárheimilda að skerða snjómokstur á því ári sem er að líða olli því fyrir mörg byggðarlög að samgöngur riðluðust í meira mæli en áður. Vegagerðin gat einfaldlega ekki haldið uppi því þjónustustigi sem var árið 2009 og árin þar á undan.

Nú veltir maður fyrir sér, í ljósi þess fjárlagafrumvarps sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, hver stefnumörkun hæstv. ráðherra er í þeim efnum. Á að halda áfram að skera niður framlög til vetrarþjónustu Vegagerðarinnar? Þá á ég sérstaklega við snjómokstur vegna þess að um er að ræða gríðarlegt öryggismál fyrir íbúa í hinum dreifðu byggðum. Ef við setjum þetta í samhengi við að nú á draga enn frekar úr heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og lengra verður fyrir marga að ná í viðhlítandi þjónustu, hvernig getur það rímað við svo skertar samgöngubætur sem lítil vetrarþjónusta er? Ég get nefnt staði eins og Fjarðarheiði sem er eina tenging Seyðfirðinga um veg til annarra landshluta, náttúrlega fyrir utan Norrænu. Á henni er mjög erfiður fjallvegur og dregið hefur verið úr þjónustu við hann. Við getum meira að segja talað um ferjusiglingar frá Mjóafirði þar sem hætt er að moka ofan í Mjóafjörð mjög snemma og menn hafa dregið verulega úr framlögum til ferjusiglinganna sem eru kannski eina samgönguleið viðkomandi byggðarlags við aðra landshluta.

Ég held að mikilvægt sé að hæstv. ráðherra komi hingað upp og svari okkur því hvort halda eigi áfram að skera niður vetrarþjónustu á vegum Vegagerðarinnar. Ein af grundvallarforsendum margra byggðarlaga er að hægt sé að eiga greiðar og öruggar ferðir til og frá byggðarlaginu. Það segir sig náttúrlega sjálft að ef Vegagerðin mokar kannski fáa daga í viku og sinnir hlutverki sínu í minna mæli, vegna þess að henni er þröngur stakkur sniðinn er varðar fjárheimildir, er mikilvægt að hæstv. (Forseti hringir.) samgönguráðherra komi hingað upp og segi hver framtíðarstefnan sé í þessu mikilvæga máli.