139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

öryggi á þjóðvegi 1 undir Eyjafjöllum.

171. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Ég heyri að menn eru vel vakandi og ætla sér að fylgja málinu eftir allt til enda enda hlýtur það að vera meginhlutverk okkar að tryggja öryggi landsmanna, sama hvort það er kreppa eða uppgangur.

Við megum ekki gleyma því að fleiri ár undir Eyjafjöllum eru til vandræða en Svaðbælisáin. Jafnframt hefur maður örlitlar áhyggjur af því að málin séu ekki hugsuð í heild. Vegagerðin hugsar aðallega um að verja vegina og samgöngumannvirkin en Landgræðslan sér um ræktunarlandið og að hindra öskufok og slíkt. Það eru nefnilega líka ákveðin vandræði þegar komið er niður fyrir Svaðbælisána, niður fyrir þjóðveginn. Ég er með fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um það hér á eftir, mönnum til upplýsingar.

Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að farið sé eftir þeim tillögum sem birtast í stöðuskýrslunni sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra birti og er m.a. að finna á heimasíðu embættisins. Í henni er lögð áhersla á að samráðshópur Vegagerðarinnar, Landgræðslunnar, hagsmunaaðila á svæðinu og almannavarnarnefndar hittist reglulega og fari yfir þetta. Eins tel ég gríðarlega mikilvægt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því sem yfirmaður almannavarna að samráðshópurinn, þ.e. ráðuneytisstjórahópurinn, haldi áfram af fullum krafti og fullum dampi að vinna. Það er hætta á því, eins og ég sagði áðan, þegar atburðurinn er yfirstaðinn að þetta stóra verkefni fái minni athygli. Við glímum vissulega enn við erfiðar aðstæður af völdum náttúruhamfaranna. Því skulum við ekki gleyma. (Forseti hringir.)