139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Landeyjahöfn hefur verið lokuð mun meira en áætlað var og rekja sérfræðingar þetta til óhagstæðrar vindáttar og afleiðinga gossins í Eyjafjallajökli sem hvort tveggja hefur valdið auknum sandburði inn í höfnina. Af þeim sökum hefur bæði þurft að fella niður ferðir Herjólfs og sigla skipinu til Þorlákshafnar. Síðan þá hefur verið unnið að því að finna lausnir, bæði til skemmri tíma en einnig varanlegar lausnir. Þann 21. október sl. voru opnuð tilboð í viðhaldsdýpkun í Landeyjahöfn. Viðhaldsdýpkunin var boðin út til þriggja ára þar sem dýpkunarskip átti að vera til staðar í Vestmannaeyjum fyrsta árið. Magnið var áætlað 140 þús. rúmmetrar veturinn 2010–2011, 80 þús. rúmmetrar veturinn 2011–2012 og 60 þús. rúmmetrar veturinn 2012–2013. Kostnaðurinn hljóðað upp á 246 millj. kr.

Niðurstaðan varð sú að óska eftir heimild til að semja við Íslenska gámafélagið. Haft verði að leiðarljósi að samið verði til eins árs og að kostnaðurinn verði innan áætlunar. Áætlaður verktakakostnaður er um 130 millj. kr.

Þá er talið að gagnlegt væri að kaupa plóg í samvinnu við Eyjamenn. Slíkan búnað væri unnt að nota í yfir tveggja metra ölduhæð og gæti hann opnað höfnina og haldið opinni eftir minni veður.

Að síðustu var talið að árangursríkt yrði að gera flóðvarnargarð til að færa ósa Markarfljóts austar. Þetta er til að draga úr því að sandburður niður Markarfljót berist inn í höfnina á komandi árum. Kostnaður við það er áætlaður um 30 millj. kr. Þetta er nokkuð sem þarf síðan að sjálfsögðu að fara í umhverfismat.

Áætlaður heildarkostnaður vegna þessara þriggja aðgerða er um 180 millj. kr. Til framtíðar verður unnið að skoðun á föstum dælubúnaði sem sérfræðingar kalla upp á ensku „bypass“-lausn. Stofnkostnaður slíks búnaðar mun verða á annað hundrað milljónir króna. Hins vegar mun rekstrarkostnaður slíks búnaðar vera töluvert minni en dæluskips.

Lagt er til að skoðuð verði kaup á nýrri ferju. Við smíði slíkrar ferju þarf að hafa í huga stærð, stjórnhæfni, flutningsgetu, djúpristu og vindfang. Þar erum við aftur komin að pylsum og bjúgum, en við víkjum að þeim sennilega nánar í fyrirspurn sem enn bíður okkar.