139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ný Vestmannaeyjaferja.

173. mál
[17:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Við höfum rætt aðeins um Landeyjahöfn en til stóð og hefur staðið til að þegar höfnin yrði tekin í notkun mundi nýr Herjólfur hefja siglingar um höfnina. Sú varð hins vegar ekki raunin, enda voru þau tilboð sem bárust þegar smíði ferjunnar var boðin út ekki hagstæð og því var ákveðið að fresta því og fara frekar í verkið í á vegum ríkisins.

Við vígslu hafnarinnar í sumar kom fram í máli hæstv. þáverandi samgönguráðherra, þess vaska drengs, Kristjáns L. Möllers, að til stæði að stofna stýrihóp um það verkefni að hefja að nýju smíði nýs Herjólfs. Þess vegna er eðlilegt að beina þeirri fyrirspurn til núverandi hæstv. samgönguráðherra hvar það máli standi vegna þess að við vígslu hafnarinnar kom fram að stýrihópurinn ætti að hefja störf hið fyrsta og vera langt kominn með, að því er mér skildist, að komast að niðurstöðu um áramótin.

Nú eru að koma jól og ég a.m.k. þekki ekki til þess að stýrihópurinn hafi verið skipaður að öðru leyti en því að formaðurinn situr einn í stýrihópnum og kvað funda mikið, hv. þm. Róbert Marshall. En betur má ef duga skal. Það er ljóst að þessi varanlega samgöngubót til handa Vestmannaeyjum þarf nýjan fararskjóta, nýjan Herjólf sem passar inn í þessa höfn. Gamli Herjólfur er ágætt skip. Það er fínt að hafa prófað að sigla þessa leið á því skipi en hins vegar er ljóst að það er ekki framtíðin að nýta það á þessari siglingaleið. Hugmyndin var sú, sem ég veit ekki til að hafi verið fallið frá, að smíða nýja ferju, afla nýrrar ferju sem hentar þeim aðstæðum sem í höfninni eru. Því er mikilvægt að þingmönnum sem og heimamönnum í Eyjum og Rangárþingi og landsmönnum öllum, sem mjög margir hafa nýtt sér höfnina til að ferðast til Vestmannaeyja og kynna sér þær góðu aðstæður sem þar eru og það áhugaverða mannlíf sem þar er, sé ljóst hver framtíðin er varðandi nýjan Herjólf til siglinga milli lands og Eyja.