139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ný Vestmannaeyjaferja.

173. mál
[17:44]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég vék að áðan, að Landeyjahöfn væri byggð eins og pylsubrauð en það væri verið að troða bjúgu í pylsubrauðið. Það er einföld skýring og það gengur ekki. Núverandi Herjólfur er of hábyggður og djúpristur og þess vegna þarf nýtt skip. Það má hins vegar segja að það hafi verið lán í óláni að ekki var búið að byggja skip, því að umferðin hefur verið slík þann tíma sem hægt hefur verið að sigla að það þarf að byggja skip sem tekur miklu fleiri bíla. Þetta er hlutur sem þarf að taka upp.

Það var staðfest af hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra síðastliðið vor að það væru ágæt tímamörk í lok næsta árs, ekki þessa árs, að hafa klárar tillögur varðandi nýja ferju. Þá væri komin reynsla sem menn gætu metið og hlutir sem væri ástæða til að taka tillit til þegar ný ákvörðun yrði tekin um skip. Það er í lok næsta árs sem hefur verið talað um og það þarf að fylgja því mjög markvisst eftir, virðulegi forseti.