139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ný Vestmannaeyjaferja.

173. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna um nýjan Herjólf fyrir framlag þeirra og eins ráðherranum fyrir ágætissvör. Hins vegar svaraði hæstv. ráðherra ekki skýrt hvenær stýrihópur varðandi nýjan Herjólf yrði skipaður eða hvort búið væri að skipa þann stýrihóp. Það væri ágætt að fá skýr svör frá ráðherranum vegna þess að ég skildi mál ráðherrans þannig að til stæði að slíkur stýrihópur starfaði og undirbyggi verkefnið.

Vissulega áttum við okkur öll á því að það eru breyttar aðstæður í efnahagslífi okkar en engu að síður hættum við ekki að vera til og við hljótum að ætla að nýta þá fjárfestingu sem liggur í Landeyjahöfn með sem bestum hætti þannig að við getum sinnt þjóðvegi Eyjamanna fullnægjandi. Við hljótum að halda áfram að undirbúa það hvernig ný ferja eigi að komast fyrir og hvaða kostum hún þurfi að vera búin.

Það er tímafrekt verkefni að átta sig á því og skilgreina þarfir slíks skips. Nú þegar nokkur reynsla er komin á rekstur hafnarinnar og eins eftir þennan vetur er ljóst að menn verða betur áttaðir á því hverjir eiginleikar varanlegs skips í Landeyjahöfn eiga að vera. Því tel ég mikilvægt að stýrihópurinn verði skipaður hið fyrsta. Þótt hv. þm. Róbert Marshall sé margra manna maki teljum við nauðsynlegt að fleiri aðilar séu í stýrihópnum og þá verði sérstaklega horft til þess að heimamenn hafi þar sína fulltrúa til að hafa skoðanir á því með hvaða hætti þjónustan er veitt, enda eru það þeir sem nýta þjónustuna og koma til með að sjá kosti og galla betur en við hin.

Engu að síður hvet ég hæstv. ráðherra enn og aftur til dáða. Landeyjahöfn er og verður framtíðarlausn á samgöngumálum Vestmannaeyinga og til að klára verkið verðum við að huga að smíði nýs Herjólfs.