139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

aðgerðir til að fyrirbyggja tjón á jörðum bænda undir Eyjafjöllum.

170. mál
[17:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir fyrirspurnina. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á, það er mikilvægt að vinna heildstætt að því að verja tún, mannvirki, vegi og umferðaræðar á þessu svæði en einnig vera með heildstæða áætlun um hvernig á því skuli tekið.

Bara til að rifja það upp var af hálfu ríkisstjórnarinnar skipuð sérstök nefnd ráðuneytisstjóra nokkurra ráðuneyta sem áttu þarna hlut að máli og henni var falið að fylgjast með og samhæfa þær aðgerðir sem gripið yrði til.

Eins og hv. þingmaður vék að eru þau skipti á milli verkefna ráðuneytanna að á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins eru verkefnin sem falla undir Bjargráðasjóð og lúta fyrst og fremst að búskap og búrekstri og gagnvart þeim sem greiða gjald til Bjargráðasjóðs gegnum búnaðarlagasjóðsgjald. Það eru hreinsun á framburði og ræktun á landi vegna vatnsflóða, hreinsun á túnvegum og endurgerð þeirra vegna vatnsflóða, hreinsun skurða vegna vatnsflóða og skemmda á túngirðingum vegna þessara vatnsflóða og svo endurræktun túna vegna vatnsflóða og/eða öskufalls.

Þetta eru þau meginatriði sem lúta að Bjargráðasjóði en það er síðan alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt bæði til skamms tíma og lengri tíma að líta til aðgerða hinna aðilanna. Landgræðslan kemur að því að verja varnargarða, ræktun á landi og beitiland og annað sem undir hana heyrir. Vegagerðin kemur svo að því að tryggja að vegirnir og brýr og annað því um líkt séu þarna líka og verði svipað þessari heild.

Árfarvegirnir hafa hækkað vegna framburðar. Enn er mikil aska eftir og getur því haldið áfram að lyfta upp árfarvegunum þannig að sú vinna sem lögð er í að hreinsa skurði og verja land verður til lítils ef síðan flæðir áfram út úr árfarvegunum.

Vegagerðin og Landgræðslan hafa á undanförnum mánuðum unnið að uppmokstri úr farvegum nokkurra fallvatna, m.a. upp úr Holtsá, Svaðbælisá, Laugará, Bakkakotsá og Kaldaklifsá. Varnargarðar hafa verið endurbyggðir og hækkaðir, aðallega við Holtsá, Svaðbælisá og Laugará, og hættunni hefur að mestu verið bægt frá landi Þorvaldseyrar en lönd Holtsjarða, Önundarholts og Seljavalla og fleiri jarða gætu verið í hættu næsta vor og sumar verði uppmokstri ekki haldið áfram.

Ríkisstjórnin hefur á fjáraukalögum 2010 veitt fjármagn til Landgræðslunnar til þessara framkvæmda en einnig hefur Landgræðslan sótt um viðbótarfjárveitingu á fjáraukalögum til að halda uppmokstrinum áfram nú þegar framburður bætist við.

Hv. þingmaður vék að því að þarna væru ákveðnar jarðir sem þyrfti að taka afstöðu til hvort hægt væri að verja fyrir flóðum og flóðahættu svo forsvaranlegt væri. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns, það er nauðsynlegt að fara vel í gegnum þau mál. Ég mun, ekki síst í kjölfar þess að hv. þingmaður tekur málið upp, fylgja því eftir við ráðuneytisstjóranefndina sem fer yfir þau heildstætt að fara yfir þessi mál, hvar þau skarast, á hvaða þáttum þarf að taka enn fastar, hvaða álitaefni eru uppi þannig að málið sé unnið áfram. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir þeirri alvöru sem snýr að einstökum jörðum þarna og þarf að taka afstöðu til.