139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

aðgerðir til að fyrirbyggja tjón á jörðum bænda undir Eyjafjöllum.

170. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna þeirri yfirlýsingu sem birtist okkur í lokaorðum hæstv. ráðherra um að nú verði farið yfir þessi mál í heild sinni með samráðshópnum úr ráðuneytunum. Við skulum ekki láta það gerast að við gleymum þessum málum og skiljum fólk eftir í óvissu. Það er algjörlega ljóst að fjölmörg mál eru enn eftir óunnin og ókláruð í kjölfar gossins og við þurfum einfaldlega að tryggja að menn og bújarðir séu örugg og að það sé algerlega ljóst hvert sé stefnt. Ég fagna því að hæstv. ráðherra muni nú fara yfir þessi mál með sínu fólki í ráðuneytinu og hvet hann til dáða í því efni og mun spyrja hæstv. ráðherra eftir nokkra daga hvernig gangi og fá þá frekari svör.

Ég held að við séum öll vel meðvituð um að það er enn nokkuð í land. Við sjáum væntanlega næsta vor með hvaða hætti Landgræðslunni muni takast að hefta öskufok svo dæmi megi nefna vegna þess að það er enn vandamál. Það komu nokkrir dagar um daginn undir Eyjafjöllum með viðvarandi óþægindum vegna öskufoks þannig að þetta er verkefni sem stendur enn yfir. Við megum ekki gleyma því og ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að fylgja þessu eftir og er augljóslega ekki búinn að gleyma gosinu.