139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðikortasjóður.

124. mál
[18:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og af því að það er alltaf verið að skamma okkur fyrir að skamma hvert annað hérna vil ég nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa sett þetta prýðilega fram. Svör hæstv. ráðherra er ágætisgrunnur til að ræða þetta mál.

Ég held hins vegar að þær spurningar sem lagðar eru fram komi ekki úr lausu lofti. Þær koma vegna þess að fólki hefur ekki fundist þetta vera nógu skýrt og ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna málið með þeim hætti að enginn velkist í vafa um hvað er á ferðinni. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hafa samráð við þá sem gerst þekkja til og þurfa að koma að þessum málum og þá er ég sérstaklega að vísa til veiðimanna. Mér líst vel á að í þessari fimm manna ráðgjafarnefnd sé a.m.k. einn frá Skotvís, það er gott skref. Besta leiðin til að koma á deilum er að hafa leynd yfir málum og mönnum er ekki ljóst hvað liggur til grundvallar ákvörðunum og öðru slíku, þá skapast tortryggni og fer oft gríðarleg orka í eitthvað að ástæðulausu.

Ég tel þetta vera góðan grunn. Við höfum ekki tækifæri til að ræða svör hæstv. ráðherra í neinum smáatriðum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau en hvet hana til að ganga lengra og sjá til þess að allt það sem snýr að þessum sjóði og sambærilegum sjóðum verði eins opið og — ég ætla helst ekki að nota orðið gagnsætt, það er orðið skammaryrði, en í það minnsta opið og skýrt (Forseti hringir.) þannig að allir séu meðvitaðir um hvað (Forseti hringir.) er á ferðinni. Ég áskil mér rétt og veit að hæstv. ráðherra vill fara betur yfir málið í náinni framtíð.