139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

starfsemi og rekstur náttúrustofa.

182. mál
[18:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Út af orðaskiptum hæstv. ráðherra og hv. þingmanns þá kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu að undir þeim fjórum liðum sem falla undir rannsóknir er skorið niður um 50% hjá náttúrustofunum. Náttúrufræðistofnun Íslands fær viðbót upp á 3,4%, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar dregst saman um 3,2% og Veðurstofa Íslands um 0,3% þannig að það er hrópandi ósamræmi þarna á milli.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að gangi þetta eftir sem mér finnst mjög óréttlátt mun það nánast veita þessum stofnunum náðarhöggið. Ég held að við verðum að ræða hlutina nákvæmlega eins og þeir eru. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað það sérstaklega að færa aukin verkefni til þessara stofnana. Við erum með fullt af verkefnum sem væri hægt að færa til stofnananna og láta þær vinna til að þær gætu starfað áfram. Eftir þessum tillögum að dæma munu þær ekki geta starfað.