139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ofanflóðavarnir í Neskaupstað.

183. mál
[18:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Hann spyr hvað líði útboði til framkvæmda við ofanflóðavarnir í Neskaupstað. En hann spyr líka: Af hverju hefur ráðherrann ekki beitt sér fyrir því?

Því er til að svara að ráðherrann hefur beitt sér fyrir því og gerir það ítrekað þó að það sé kannski ekki gert héðan úr stólnum. Hitt er svo að framkvæmdir við upptakastoðvirki á Tröllagiljasvæðinu í Neskaupstað hófust á árinu 2009 og áfram hefur verið unnið að þeim á þessu ári. Áætlað er að þeim framkvæmdum ljúki árið 2012.

Vorið 2009 var fyrirhugað að bjóða út byggingu varnargarðs á svonefndu Tröllagiljasvæði í Neskaupstað sem ætlað er að verja stóran hluta innri bæjarins gegn snjóflóðum. Hins vegar var fallið frá þeirri fyrirætlan, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á, að ósk fjármálaráðuneytisins vegna niðurskurðar ríkisútgjalda sumarið 2009 og var ákveðið að bíða með að hefja þá framkvæmd til ársins 2013. Jafnframt var þá ákveðið að hefja ekki ný verkefni við fjármögnun ofanflóðasjóðs fyrr en á árinu 2013 en miða fjárheimildir sjóðsins fram að þeim tíma við að ljúka umsömdum framkvæmdum.

Ég er í grunninn algerlega sammála þingmanninum um það að þarna eru í fyrsta lagi til peningar. Þetta er þjóðþrifaverkefni. Þetta er náttúrlega öryggismál fyrir þessar byggðir en ekki síst er þarna um að ræða borðleggjandi atvinnuverkefni þar sem verkefnin eru bæði skilgreind, skýr, peningarnir eru fyrir hendi og þá veltir maður fyrir sér hver sé hindrunin.

Ég get upplýst þingmanninn um það að núna á allra síðustu vikum voru teknar upp viðræður að nýju milli umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytis um þessi mál sérstaklega. Niðurstaðna er að vænta á allra næstu vikum, helst að mínu mati á allra næstu dögum, um það hvort unnt verði að hreyfa þær framkvæmdir sem eru næstar á dagskrá sem eru fyrst og fremst Neskaupstaður og Ísafjörður. Og vegna þess sem hér hefur ágætlega verið reifað er ekki bara um að ræða öryggissjónarmið heldur ekki síður atvinnuverkefni. Maður getur þá líka velt því fyrir sér, þó að maður sé fyrst og fremst kunnandi á bókhald eldhúsborðsins, að það sé kannski farsælla að jafnaði að brúka þá peninga sem maður á sjálfur í banka en að leita leiða til að fá þá að láni fyrir sambærileg verkefni ef þau heita þá kannski vegagerð. En þetta eru nákvæmlega sambærileg verkefni og kalla á að mörgu leyti sams konar atvinnu og sams konar mannafla. Ég vænti þess að við sjáum til lands í þessu á allra næstu dögum eða vikum og ég vona innilega að við þingmaðurinn þurfum ekki að eiga aftur næturfund um þetta að ári liðnu.