139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðar á mink og ref.

184. mál
[18:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Áfram höldum við með liðinn Fastir liðir eins og venjulega vegna þess að ég spurði líka hæstv. ráðherra í myrkrinu í fyrra um þetta málefni og er ég mikill áhugamaður um veiðar á mink og ref.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er stefna ráðherra hvað varðar eyðingu og veiðar minks — ég endurtek: eyðingu og veiðar minks — og hver er stefna hennar hvað varðar veiðar á ref? Ég geri þarna dálítinn greinarmun á vegna þess að refurinn er landnámsdýr, hann hefur verið í íslenskri flóru alveg frá landnámi og fyrir þann tíma þannig að ég tel ekki rétt að eyða honum algerlega. (MÁ: Hvaða landnámi?) Þá spyr hv. þm. Mörður Árnason: Hvaða landnámi? Það gæti jafnvel verið frá landnámi refsins sjálfs þar sem hann var kannski á undan okkur hinum á þessa eyju.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins frekar út í þetta mál vegna þess að við höfum fengið áskoranir frá sveitarfélögum vítt og breitt að landið um að takmarka þurfi stærð þessara stofna, eyða minknum, takmarka refinn. Ég spurði hæstv. ráðherra út í málið í fyrra og endaði ráðherra á því í þeirri umræðu að segja, með leyfi herra forseta:

„Ég tel rétt að setja í gang starfshóp í kjölfar þessarar umræðu sem mun rýna þetta mál til lengri framtíðar, þá með það að markmiði að skoða stöðu stofnsins og raunverulega stýringu á þeim inngripum sem þarna er um að ræða og hvort það sé kostnaðarins virði að halda því áfram sem verið hefur hingað til.“

Mörg undanfarin ár hefur verið gerð úttekt á þessu. Ég er með grein eftir þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigríði Önnu Þórðardóttur, frá árinu 2005 þar sem segir, með leyfi herra forseta:

„Tvær nefndir störfuðu nýlega á vegum umhverfisráðuneytisins og fjölluðu annars vegar um refinn og hins vegar um minkinn. Báðar komust að þeirri niðurstöðu að grípa þyrfti til markvissra aðgerða til að fækka ref en útrýma mink, væri þess kostur.“

Menn hafa á undangengnum árum reynt að halda þessum stofnum í skefjum en eftir að hafa farið nýlega um kjördæmi mitt, Norðausturkjördæmi, hefur þessi umræða komið upp sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem eru dreifbýl með umfangsmikil landsvæði. Ég get t.d. nefnt Skútustaðahrepp í þeim efnum en náttúruverndarsvæðið við Mývatn heyrir undir þá sveitarstjórn. Fólk þar hefur varla orðið efni á því að standa í því að halda aftur af þessum stofnum þannig að það þarf aukinn stuðning stjórnvalda til að halda stofnunum í skefjum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort sú nefnd eða starfshópur sem hún nefndi í fyrra hafi lokið störfum og hvað hæstv. ráðherra ætli sér að gera til að halda þessum stofnum í skefjum. Ef þeir eru ekki veiddir — það veiðir þá enginn annar — mun þessum rándýrum í íslenskri náttúru fjölga stórkostlega með tilheyrandi áhrifum á íslenskt fuglalíf meðal annars.