139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðar á mink og ref.

184. mál
[18:46]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Enn þakka ég þingmanninum fyrir árvisst erindi við mig í fyrirspurnatíma en hér er spurt nokkuð almennum orðum um stefnu ráðherra varðandi veiðar á ref og mink. Mér finnst því rétt að svara því þannig að árétta helstu ákvæði um þessar veiðar í lögum. Ég árétta fyrri ákvæði og fjalla síðan um nokkur álitamál sem upp hafa komið varðandi þessi mál, þ.e. hvort ástæða sé til að efna til útrýmingarátaks á landsvísu gegn mink sem er eitt af því sem rætt hefur verið.

Grundvallarreglan í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum gerir ráð fyrir að villt dýr séu friðuð nema annað sé tekið fram í lögum. Um refi og minka gilda sérákvæði sem eru aðeins ólík. Varðandi refi getur umhverfisráðherra ákveðið að nauðsynlegt sé að láta veiða refi til að koma í veg fyrir tjón af völdum þeirra. Sveitarstjórnir ráða kunnáttumenn til grenjavinnslu og geta falið skotmönnum að skipuleggja refaveiðar að vetrarlagi en að auki eru refaveiðar utan grenjatíma öllum heimilar sem til þess hafa leyfi á svæðum þar sem friðun hefur verið aflétt. Nánari ákvæði eru um framkvæmd og fjárveitingu veiðanna sem ég tel óþarft að tíunda hér en refaveiðar eru heimilar á stærstum hluta landsins, þó ekki á öllu landinu.

Í þessu sambandi má geta þess að nýverið var sett á laggirnar nefnd sem falið er að gera tillögu að endurskoðun laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Minkar njóta ekki friðunar neins staðar á Íslandi. Að vísu er heimild til að friða minka staðbundið í rannsóknarskyni en sú heimild er ekki nýtt og væri varla nýtt nema til að afla upplýsinga sem mundu ekki síst nýtast til að gera baráttuna gegn minknum árangursríkari.

Minkurinn er nýlega innflutt tegund sem slapp fyrir slysni og hefur valdið miklum breytingum á náttúru landsins og skaða á hlunnindum, svo sem fiskveiðum í ferskvatni og æðarvarpi. Refurinn er hins vegar líklega eina landspendýrið sem á sér lengri sögu hér en maðurinn. Við viljum draga úr tjóni af völdum hans og því eru veiðar leyfðar víðast hvar en alls staðar undir stjórn. Við viljum hins vegar fæst útrýma honum, ekki frekar en haferninum þótt hann geti líka valdið tjóni á hlunnindum.

Útrýming minks á Íslandi væri hins vegar æskileg að mínu mati og margra ef ekki flestra annarra og lögin endurspegla klárlega það sjónarmið. Ekki er langt síðan minkurinn kom til Íslands og var það vegna inngripa mannsins í náttúruna. Því er vart hægt að segja að staðbundin útrýming hans hér á landi væri neikvæð frá sjónarhóli náttúruverndar. Útrýming minks á landsvísu væri klárlega mjög vandasöm og dýr aðgerð og mjög óvíst er hvort hún tækist á annað borð. Umhverfisráðuneytið hefur í nokkur ár staðið fyrir átaksverkefni þar sem tilraun er gerð til staðbundinnar útrýmingar minks á tveimur svæðum á landinu, annars vegar á Snæfellsnesi og hins vegar á Eyjafjarðarsvæðinu ásamt vísindalegum athugunum til að varpa ljósi á spurninguna hvort útrýming á landsvísu sé möguleg og hvað hún mundi þá kosta. Niðurstöður liggja ekki fyrir en verða væntanlega kynntar snemma á næsta ári. Það er þó ljóst að mjög vel hefur tekist til við að fækka mink á Eyjafjarðarsvæðinu en hægar hefur gengið á Snæfellsnesi.

Ég tel ekki rétt að ég dragi miklar ályktanir af því áður en niðurstöður verkefnisins og mat vísindamanna liggja fyrir en það hlýtur þó að teljast ólíklegt að farið verði í landsátak til útrýmingar á mink á næstu árum af hálfu ríkisvaldsins af fjárhagsástæðum því að vafalaust þyrfti að margfalda útgjöld til minkaveiða í slíkri tilraun.

Ef slíkt yrði leyft vaknar sú spurning hvort leyfa eigi minkarækt á Íslandi ef tilraunin tækist því að þótt miklu betur sé staðið að þeirri grein nú en á fyrri hluta 20. aldar verður seint hægt að koma algerlega í veg fyrir að einhver dýr sleppi. Ég tel hins vegar ljóst að átakið sýni að hægt er að fækka mink verulega svæðisbundið og halda honum niðri með markvissum aðgerðum. Vonandi verða átaksverkefnið og niðurstöður þess til þess að hjálpa okkur við að finna betri leiðir til þess og ná hámarksárangri með þeim fjármunum sem tiltækir eru hverju sinni. Ég held að nokkuð almenn sátt ríki um grundvallarmarkmið varðandi veiðar á ref og mink og að lögin endurspegli þá sátt vel. Það er hins vegar stöðugt viðfangsefni að skoða fyrirkomulag veiða til að ná sem bestum árangri og draga markvisst úr tjóni á sem hagkvæmastan hátt fyrir stjórnvöld og samfélagið innan þess ramma sem lögin bjóða okkur.

Varðandi spurninguna sem fram kom í máli þingmannsins um starfshópinn sem ég boðaði í lok máls míns fyrir réttu ári hefur eiginlegur starfshópur ekki verið settur á stofn heldur skoðuðum við þau gögn sem fyrir liggja varðandi refinn, einkum vegna þess að okkur skortir fjármagn til að fara í þær rannsóknir sem þarf til að við höfum nýjan grundvöll til að breyta afstöðu okkar til þess hvernig við umgöngumst þennan stofn. Samkvæmt þeim sem gerst þekkja til er nóg að byggja á þeirri skýrslu sem þingmaðurinn benti á í umfjöllun sinni að því er varðar nálgun okkar og sérstaklega að því er varðar refinn.