139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðar á mink og ref.

184. mál
[18:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst segja að mér þykir mjög óskynsamleg sú tillaga frá umhverfisráðuneytinu að skera niður refaveiðar um 17 millj. kr., þ.e. að þurrka alveg út endurgreiðslu til sveitarfélaganna. Ég batt hins vegar miklar vonir við þann starfshóp sem hæstv. umhverfisráðherra ætlaði að skipa. Niðurstöðurnar valda mér ákveðnum vonbrigðum sem hæstv. ráðherra skýrði frá áðan því að ég held að skynsamlegra hefði verið að fá þá í málið sem unnið hafa við þetta áratugum saman og þekkja náttúruna ekkert síður en þeir sem sitja á skrifstofum í Reykjavík.

Það þarf að taka þennan málaflokk til algerrar endurskoðunar því að það er mjög misjafnt hvernig sveitarfélögin í landinu sinna honum. Sum sinna honum ekki neitt, önnur sinna honum mjög vel. Það verður að skoða þetta í heildarsamhengi hlutanna.

Að lokum hvet ég hæstv. ráðherra til að skipa starfshóp sem væri þá bæði skipaður fólki sem er menntað í greininni og ýmsum sem hafa þekkingu og hafa starfað við þetta. Eins vil ég benda hæstv. ráðherra á að mér finnst mjög óréttlátt að sveitarfélögin fái ekki endurgreiddan virðisaukaskatt af þessum veiðum vegna þess að þetta er eiginlega (Forseti hringir.) orðinn hreinn og klár tekjustofn fyrir ríkissjóð og það er mjög alvarlegt.