139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðar á mink og ref.

184. mál
[18:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er fullkomlega virðingarvert að gæta atvinnuhagsmuna í héraði en þessi mál eru þannig að við getum ekki litið á þau fyrst og fremst út frá þeim hagsmunum. Ég hef verið sannfærður um það í nokkur ár að stefna okkar í þessum málum, sú sem hér hefur ríkt undanfarna áratugi, sé tilviljunarkennd og röng og ég bind vonir við þær niðurstöður sem hæstv. umhverfisráðherra talar um úr rannsóknum sem fram fara. Það er hald mitt að í raun og veru stefni allt í að refurinn verði friðaður sem íslenskt dýr nema við sérstakar aðstæður. Ég get tekið undir það með umhverfisráðherra og öðrum sem um það tala að æskilegt væri að útrýma minknum en rétt er að vekja athygli á því að skilyrðin eru tvenns konar: Í fyrsta lagi að við ræktum þá ekki mink framar á Íslandi og í öðru lagi að við náum síðasta minknum, því að það verðum við að gera, a.m.k. tveimur síðustu minkunum, með gríðarlegum kostnaði sem sennilega er fyrir gýg.