139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðar á mink og ref.

184. mál
[18:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Þessi umræða er alltaf jafnmerkileg að mörgu leyti vegna þess að fram koma mismunandi sjónarmið. En það er alveg á hreinu að niðurskurður á framlögum til veiða á ref jaðra við að framtíðarmúsíkin sé sú að það eigi að friða þetta dýr samkvæmt áformum núverandi stjórnvalda með þessu fjársvelti. Meira að segja er það svo að þau sveitarfélög sem þó reyna með veikum mætti að veiða þessi dýr sem eru skaðvaldur í íslenskri náttúru, þurfa að borga virðisaukaskatt til ríkissjóðs vegna þess. Það er náttúrlega með hreinum ólíkindum. Þeir sem þekkja til minksins vita að þar er á ferðinni skaðræðisdýr, óargadýr, sem hefur svo mikla nautn af því að drepa — ekki til matar, það er ekki málið, sést hefur til minks fara í gegnum heilu vörpin og taka hausinn af tugum æðarkollna á einu kvöldi. (Gripið fram í.) Það er alveg ótrúlegt drápseðli (Gripið fram í.) sem þetta dýr hefur (Gripið fram í.) og minnir mig á verstu myndir stjórnmála dagsins í dag þar sem sumir virðast hafa allskelfilegt eðli í þeim efnum, en við vonum að það muni lagast.

En hvað um það. Menn verða að sýna þessum málaflokki aukinn skilning. Fámenn og dreifbýl sveitarfélög hafa einfaldlega ekki bolmagn til að standa undir því að takmarka stofna þessara dýra sem vega oft að æðarvörpum, fuglalífi í heilu fjörðunum sem viðkomandi dýr geta jafnvel eytt gjörsamlega.

Þessi fyrirspurn er ólík öðrum fyrirspurnum sem ég hef sett fram til hæstv. umhverfisráðherra. Ég vil segja að sú stefnumörkun er miður að nefndin sem setja átti á fót skuli ekki hafa farið af stað, að verið sé að skera niður framlög til veiða refs hér á landi (Forseti hringir.) og að enn eigi að innheimta virðisaukaskatt af þessum veiðum. Það sýnir að ríkisstjórnin ætlar sér greinilega (Forseti hringir.) að vernda refinn og minkinn til framtíðar.