139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ný þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gefur augljóslega tilefni til að endurskoða tekjuspána, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, og þarf að fara yfir rammann sem notaður var við gerð fjárlagafrumvarpsins. Það á við um hagvöxt sem spáð er að verði minni en gert var ráð fyrir. Af þeim sökum fara minni tekjur til ríkissjóðs en einnig þarf að endurmeta aðrar stærðir eins og minna atvinnuleysi en spáð var í júní, sem dregur þá úr útgjöldum ársins 2011 á því sviði. Það vegur einnig nokkuð á tekjuhliðinni. Lægri tekjuspá mun líka virka til lækkunar á útgjaldahlið frumvarpsins. Það eru því ekki allar fréttir neikvæðar sem koma fram í hagspánni, sem betur fer.

Annað sem skiptir máli við mat á forsendum fjárlagafrumvarpsins er útkoman í ár en hún er betri en fjárlög segja og hallinn er umtalsvert minni. Það er jákvætt og vegur upp á móti neikvæðum þáttum. Við þurfum auðvitað að leggja þetta saman allt saman og vega og meta en það er alveg klárt að við vinnum eftir efnahagsáætluninni sem kynnt var í júní 2009 og sem miðar að því að ná frumjöfnuði árið 2011.

Hagspá Hagstofunnar er mjög nálægt spá Seðlabankans sem birtist fyrir stuttu og í frétt á mbl.is segir að samkvæmt hagspá Seðlabankans, ASÍ, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé að meðaltali gert ráð fyrir 2% hagvexti á næsta ári. Allar spárnar gera ráð fyrir hagvexti sem sýnir að þeim ber öllum saman um að við séum á leið út úr kreppunni. Það eru mjög góðar fréttir. Við vildum auðvitað hafa hagvöxtinn meiri, en spárnar gefa sterka vísbendingu um að stöðugleiki hafi náðst og það er mjög gott.

Einnig eru það góðar fréttir að verðbólgan er minni og fer enn minnkandi og að aðstæður skapist þannig að vextir geti haldið áfram að lækka. En augljóslega þarf að endurskoða tekjuhliðina, það er áreiðanlegt.