139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þetta svokallaða Árbótarmál nema að því leytinu til að biðja þingmenn og um leið þá fjölmiðla að gæta sannmælis í þessu en draga ekki alla þingmenn kjördæmisins inn í þetta mál, líkt og gert er í Fréttablaðinu, heldur horfa á staðreyndir í málinu.

Vegna umræðu sem hv. þm. Bjarni Benediktsson byrjaði áðan um hagvöxtinn og þau vonbrigði sem það hljóta að vera ríkisvaldinu og ríkisstjórninni vil ég vitna í frétt á mbl.is þar sem haft er eftir hæstv. fjármálaráðherra að „árið væri [ekki] enn liðið og því gætu forsendur hagspárinnar breyst. Einnig væri svo mikil óvissa í efnahagslegum forsendum, að endanleg niðurstaða verði hugsanlega ekki ljós fyrr en eftir langan tíma“.

Ég veit ekki alveg hvað þetta þýðir, frú forseti, en mér sýnist á öllu að þarna neiti hæstv. ráðherra, og það er áhyggjuefni fyrir okkur þingmenn og þingið, að horfast í augu við staðreyndir sem eru þær að það vantar tekjuöflun hjá ríkinu til að við getum staðið undir þeim verkefnum sem okkur er ætlað. Því miður, frú forseti, minnir þetta okkur svolítið á það sem einna helst var gagnrýnt í rannsóknarskýrslunni, þ.e. að margir þeir aðilar sem voru þátttakendur í hruninu eða störfuðu í kringum hrunið, jafnvel við sjálf sem erum á þingi núna, hunsuðu þau varúðarmerki og þær viðvaranir sem voru á sveimi. Því miður sýnist mér að hæstv. ráðherra sé að gera það, stinga höfðinu í sandinn og segja: Þetta er bara allt í lagi og þetta reddast.

Það þarf að auka tekjur í þessu samfélagi og það er það sem virkilega hefur skort í þessari fjárlagavinnu sem nú stendur yfir. Ef ég veit rétt — ég verð vonandi annars leiðréttur með það einhvern tímann — eru þetta um 6 milljarðar kr., (Forseti hringir.) þetta gat sem hæstv. ráðherra þarf að stoppa í, frú forseti.