139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal talaði um dæmalausa stjórnsýslu. Ég er hrædd um að þeir annmarkar sem hún hefur fundið á stjórnsýslunni núna séu ekki svo dæmalausir. Því miður held ég að æðimargt sem aflaga hefur farið og er að fara í stjórnsýslunni, bæði nú og áður, sé dæmi um pólitísk afskipti, eftirlitsleysi, virðingarleysi við valdsmörk og faglegt hlutverk stofnana.

Eitt nýlegt dæmi höfum við fengið til umfjöllunar í þinginu, málefni Menntaskólans Hraðbrautar sem er stjórnsýsluhneyksli þar sem menntamálaráðuneytið á þeim tíma ber kannski þyngsta ábyrgð.

Við höfum annað dæmi, það er skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd búvörusamninganna sem sýnir alvarlegar rangfærslur milli ára og rangfærslur milli liða, eftirlitsleysi ráðuneytis og þóknun vegna umsýslukostnaðar sem engir samningar eru um. Það er annað stjórnsýsluhneyksli sem ég hef ekkert séð fjallað um í fjölmiðlum. (Gripið fram í: Árbót.)

Allt segir þetta okkur að það sé full ástæða til að gera gangskör að því að koma í gegn einhvers konar endurbótum á stjórnsýslu landsins, mér liggur við að segja með aukinni siðvitund, ekki aðeins þeirra ráðuneyta og stofnana sem í hlut eiga heldur líka þeirra alþingismanna sem hiklaust beita áhrifum sínum í gegnum framkvæmdarvaldið, stofnanirnar og hér á þessum vinnustað, þvert á alla eðlilega stjórnsýslu og stjórnsýsluumgjörð. Það ætti að vera okkar verkefni, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)