139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í morgun blasti við mér fyrirsögn, þegar ég fór að kíkja í blöðin, sem hljómar á þessa leið, með leyfi forseta: „Létu undan þrýstingi kjördæmisþingmanna“. Síðan las ég áfram, með leyfi forseta:

„Þrýstingur frá þingmönnum Norðausturkjördæmis varð til þess að félagsmálaráðuneytið ákvað að ganga til samninga við rekstraraðila meðferðarheimilisins Árbótar um bótagreiðslur. Þetta segir Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, berum orðum í tölvupósti sem Fréttablaðið hefur fengið í hendur frá ráðuneytinu.“ (Gripið fram í.)

Svo mörg voru þau orð. Ég frábið mér sem þingmaður Norðausturkjördæmis að vera sakaður um að standa í einhverju „hankí pankí“ með hæstv. fjármálaráðherra. [Hlátur í þingsal.] Ég frábið mér það, og jafnvel þótt heimildarmaðurinn sé Árni Páll Árnason, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra núna, verður heimildin ekkert betri fyrir það. Þetta er algjör þvæla og ég frábið mér að vera sakaður um þetta.

Jafnframt held ég að margir stjórnarþingmenn ættu að líta sér aðeins nær og reyna að skammast sín fyrir þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð, ekki að pakka í vörn. Ég gæti t.d. bætt við listann hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og talað um stjórnsýsluafglöp við starfslok skólameistara úti um landið. Sem dæmi. Við getum öll sakað hvert annað um alls konar (Gripið fram í.) hluti. (ÓÞ: Rökstuðning.) Geri það í langri ræðu, hv. þingmaður, þegar ég fæ tækifæri til þess.