139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að súmmera aðeins upp þessa umræðu í dag. Það er rétt að koma því á framfæri varðandi þetta Árbótarmál að þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi komu þar hvergi nærri. Það voru einhverjir sem sátu nær hæstv. fjármálaráðherra.

Þá komu fram hjá formanni fjárlaganefndar svo jákvæð teikn að ég var m.a.s. að verða smábjartsýnn á tímabili um að kreppan væri að hverfa, það væri hagvöxtur og minni verðbólga þrátt fyrir að spáin um hagvöxt hefði minnkað um þriðjung frá því fyrr í sumar.

Sá hagvöxtur sem við ætlum að fara áfram á á næstu árum er drifinn áfram af einkaneyslu. Það hefur engin fjárfesting orðið sem skilar meiri arði í ríkissjóð, engin framleiðni — heldur ætlum við að halda áfram á einkaneyslu, þ.e. við ætlum að halda áfram á lántökum eins og við höfum stundað um 10 ára skeið. Og ekki gekk okkur sérlega vel með þá leið. Ég held að við ættum að fara að snúa af henni og velta fyrir okkur framleiðni. Ég ætla að koma aðeins inn á þá leið að við þurfum að framleiða m.a. matvæli og hætta að flytja þau inn. Bæði í þessari viku og þeirri síðustu hefur verið í fréttum að Bónus nokkur, stórvörumarkaður, flytur inn kjúkling frá Evrópusambandslandi, Danmörku, sem merktur er salmonellufrír, sem bannað er á Íslandi, og enginn veit hvort er með salmonellur í sér eður ei. Þótt allar líkur séu á að það sé a.m.k. 1% í því landi má samt halda því fram að kjúklingurinn sé salmonellufrír og setja hann á markað en á Íslandi skal allri slíkri vöru fargað. Síðast voru fréttir um það í morgun. Það þýðir að íslensk framleiðsla er auðvitað dýrari. Hún er líka heilnæmari og hún situr ekki við sama borð. Þetta er algjörlega óskiljanlegt.

Við ætlum að ræða þetta í landbúnaðarnefnd á morgun og við þurfum að fá skýr svör við þessu. Ein leið til að auka hagvöxt í þessu landi er að framleiða (Forseti hringir.) meiri matvæli innan lands og flytja minna inn.