139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér var áðan um einhvern samning við Árbót í Norðausturkjördæmi og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson las um upp úr Fréttablaðinu áðan, þeirrar umræðu sem var í gær um málið og síðan þeirrar umræðu sem nú er komin um að þingmenn Norðausturkjördæmis hafi beitt sér í málinu er ekki hægt að skilja þá umræðu öðruvísi en að um alla þingmenn kjördæmisins sé að ræða. Þess vegna vil ég taka skýrt fram fyrir mína hönd og annarra þingmanna Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi að það sem sagt var frá í Fréttablaðinu í gær kom okkur jafnmikið á óvart og öllum öðrum. Við beittum okkur ekki fyrir þeirri lausn sem þar er sett fram. Við könnumst ekkert við það mál. Hins vegar könnumst við við það, og það er rétt, að þetta var einu sinni tekið upp á fundi allra þingmanna Norðausturkjördæmis sem erindi að norðan en ekkert um úrlausn eða hvað ætti að gera við það. Menn lýstu bara áhyggjum yfir að verið væri að loka þessu meðferðarheimili. Punktur. Vegna þess sem sagt var frá í Fréttablaðinu í gær, virðulegi forseti, um að þingmenn alls kjördæmisins hafi beitt sér fyrir því vil ég taka skýrt fram að við könnumst ekkert við það og tókum ekki þátt í því.