139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er athyglisverð umræða hér um dylgjur, um hvaða þingmenn séu að dylgja í garð hvaða þingmanna sem sumir eru fjarstaddir. Ég tel, frú forseti, ekki sæmandi fyrir Alþingi að menn komi upp í ræðustól í alheilögum vandlætingartón í öðru orðinu um að breyta þurfi vinnubrögðum á þinginu en dylgi svo í hinu orðinu um félaga sína sem ekki eru hér.

Ég tel að hæstv. forseti ætti að beita sér fyrir því að kynna þessum hv. þingmönnum þá skýrslu sem þingmannanefndin skilaði í haust um m.a. bætta starfshætti í þinginu, kynna þeim hina sameiginlegu þingsályktunartillögu sem samþykkt var 63:0 vegna þess að hún er greinilega fallin ofan í skúffu og í gleymskunnar dá. Ég bið jafnframt hæstv. forseta um að hvetja menn til að tileinka sér í verki þau vinnubrögð sem þar er talað um, ekki bara flagga slíkum (Forseti hringir.) vinnubrögðum á hátíðarstundum og gleyma þeim svo jafnóðum.