139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:38]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég frábið mér ásakanir um að ég fari með dylgjur á hendur nafngreindum fjarstöddum þingmönnum. Ég er ekki upphafsmaður þess máls. Það var hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem vísaði í samninga sem ég taldi mig hafa ástæðu til að bregðast við. (Gripið fram í: Nafnið þitt var …) Aftur á móti var nafn hæstv. menntamálaráðherra aldrei nefnt í fyrri ræðu minni þegar ég talaði um það stjórnsýsluhneyksli sem átti sér stað í samskiptum menntamálaráðuneytisins og Menntaskólans Hraðbrautar. Fyrir því liggur álitsgerð sem ég get vísað í sem er skriflegt gagn sem liggur fyrir þinginu en ekki einhverjar óopinberar upplýsingar sem menn vísa í í dylgjutóni til að reyna að klekkja á þingmönnum en átta sig ekki á því að þau vopn snúast í höndum þeirra sem þannig fara með og geta snúist að þeirra eigin flokkssystkinum ef grannt er skoðað.