139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Fundarstjóri. (Forseti hringir.) Forseti, og fundarstjóri, háttvirtur, hæstvirtur og heiðraður. Það er sérkennilegt að þrátt fyrir heilt hrun, þrátt fyrir það traust til Alþingis sem við sjáum í skoðanakönnunum að er í brjóstum færri en eins af hverjum 10 Íslendingum, halda menn áfram að tala úr tryggu skjóli hinnar meintu samtryggingar með þeirri ræðu að ef fundið er að vinnubrögðum núverandi stjórnvalda og fyrrverandi stjórnvalda sprettur upp nýr þingmaður, en gamall í anda og reyndur í sínum störfum á vegum banka og útrásarvíkinga, og segir: Þú líka. Þú líka. Ef að því er fundið spretta upp aðrir tveir þingmenn og fara að skammast með dylgjum (Forseti hringir.) og steigurlæti. Þetta er þannig að menn ættu að fara heim og reyna að læra heima, hugsa sig um og koma svo aftur og reyna að hafa þvegið sér í framan (Forseti hringir.) áður en þeir koma í ræðustól með slíkan málflutning. (Gripið fram í.)