139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um það hvort okkar sé hreinna í framan en hins vegar leiðrétta þann misskilning sem greinilega hefur læðst inn hjá þingmanninum að ég hafi sakað núverandi hæstv. samgönguráðherra um kjördæmapot vegna hugsanlegs flutnings Markarfljótsósa. Samgönguráðherrann er ekki í því kjördæmi þannig að hann væri þá að pota fyrir annað kjördæmi ef um það væri að ræða. (Gripið fram í.) Ég held að þær hugmyndir séu alls ekki sprottnar af kjördæmapoti, (UBK: Þú sagðir …) heldur eru þær raunverulegar og settar fram til að gefa kost á að leysa þetta mikla vandamál sem við ræddum m.a. í gær, ég og hv. þingmaður.

Ég gerði ekki annað en að ítreka að samkvæmt landslögum og ummælum samgönguráðherrans er ekki hægt að setja slíka framkvæmd í gang, ef af verður, nema að undangengnu umhverfismati. Það er ósköp einfalt og ég var að leiðrétta þær fréttir sem hafa borist af öðru (Forseti hringir.) í dag.