139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[14:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti, fundarstjóri. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti, lögum um bifreiðagjald og lögum um olíugjald. Það er á þskj. 214, 197. mál þessa þings. Með frumvarpinu er lögð til kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja og eldsneytis að því er varðar viðmið eða andlag skattlagningarinnar. Verði frumvarpið að lögum verður skattlagning ökutækja framvegis miðuð við koltvísýringslosun þeirra. Um er að ræða mikilvæga aðgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með því að gera íslenska bílaflotann umhverfisvænni, hvetja til notkunar ökutækja sem ekki ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og undanskilja endurvinnanlega orkugjafa eldsneytisskattlagningu.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að í stað þess að vörugjald af ökutækjum taki mið af sprengirými aflvélar verði skattlagningin tengd beint við skráða koltvísýringslosun viðkomandi ökutækis, mælda í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Þetta er orðið auðvelt í framkvæmd vegna þess að slíkar upplýsingar eru handhægar og aðgengilegar um allar nýrri bifreiðar. Tillögurnar gera þannig ráð fyrir að skattlagningin fari úr 0% fyrir ökutæki sem losa minna en 80 grömm af koltvísýringi á ekinn kílómetra og upp í 65% fyrir ökutæki sem losa meira en 250 grömm á ekinn kílómetra. Tillögurnar eru útfærðar þannig að tekjur ríkissjóðs haldast óbreyttar miðað við spár um meðaltalslosun ökutækja næstu ár. Jafnframt er lagt til að ökutæki sem knúin eru metani fái allt að 750 þús. kr. afslátt af vörugjöldum, þ.e. allar minni bifreiðar og ódýrari bifreiðar sem nota það eldsneyti verða þá í raun undanþegnar vörugjöldum en þau leggjast í einhverjum mæli á allra dýrustu tækin sem flutt eru inn og nota þann orkugjafa.

Í öðru lagi er lagt til að bifreiðagjald af ökutækjum taki líka mið af skráðri koltvísýringslosun ökutækis, aftur mælda í grömmum á hvern ekinn kílómetra, og að gjaldið verði 120 kr. fyrir hvert gramm af koltvísýringslosun umfram 80 grömm en þó þannig að lágmarksgjald sé ætíð 5 þús. kr. Lagt er til að ökutæki sem knúin eru metani greiði sama lágmarksgjald og þær bifreiðar sem eru í 80 gramma flokknum og þar undir.

Breyting á bifreiðagjaldinu samkvæmt þessu frumvarpi felur í sér að tekjur ríkissjóðs af þeim gjaldstofni gætu hækkað um 200 millj. kr. milli ára miðað við það sem óbreytt gjald hefði skilað. Það er í góðum takti við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011.

Þá er í frumvarpinu einnig að finna tillögur um að endurnýjanleg íblöndunarefni af lífrænum uppruna sem blandað er við gjaldskylt eldsneyti verði undanþegin skattlagningu en svo er ekki í dag. Þetta ætti að geta hraðað þeirri þróun að menn nýti þá möguleika sem eru til íblöndunar á efnum af lífrænum uppruna. Áhugasamir aðilar um þróun á því sviði hafa bent á að það hamli henni að skattalega hafi ekki verið gerður greinarmunur þar á fram að þessu.

Í frumvarpinu eru auk þessara nokkrar minni háttar breytingar sem skipta minna máli í þessu sambandi og snúa fyrst og fremst að aðlögun laganna að ofangreindu. Á undanförnum dögum hefur umræðan snúist um hvort þetta frumvarp hafi sérstaklega íþyngjandi áhrif á landsbyggðina eða strjálbýlið umfram bifreiðarekstur annars staðar í landinu. Um það vil ég í fyrsta lagi segja að breytingarnar eru að sjálfsögðu hlutlausar í þeim skilningi að þær hafa hverfandi áhrif á rekstrarkostnað núverandi bílaflota eins og hann er samansettur. Það er eingöngu bifreiðagjaldsþátturinn sem þar kemur við sögu og vegur ekki þungt. Vissulega dregur þetta upp annað landslag þegar að því kemur að menn endurnýja bílaflotann og flytja hann inn í landið, enda er megintilgangurinn að hvetja til þess að endurnýjun í bílaflota landsmanna verði sem mest á umhverfisforsendum. Þetta ætti því beinlínis að ryðja brautina fyrir umhverfisvæna orkugjafa og sparneytna bíla eftir því sem kostur er. Allir standa að sjálfsögðu jafnt að vígi í þeim skilningi að menn geta tekið ákvarðanir í ljósi þess skattumhverfis sem hér verður. Vissulega er þó rétt að telji menn sig aðstæðnanna vegna þurfa að kaupa mjög stóra og eyðslufreka bíla er þetta íþyngjandi gagnvart því. Þá er að mörgu að hyggja, þar á meðal og ekki síst því að valkostirnir verða miklu fleiri en áður, þegar keyptir eru sparneytnir bílar jafnvel þótt þeir séu býsna stórir og öflugir.

Loksins er þróunin sem bifreiðaframleiðendur, kannski sérstaklega annars staðar en í Bandaríkjunum, hafa lagt mikið í á undangengnum árum farin að skila sér í því að í boði eru öflug sparneytin tæki. Það hefur t.d. þau áhrif að margir meðalstórir bílar, fjórhjóladrifsbílar, jeppar og jepplingar, lækka í verði. Það gildir um mörg þau ökutæki sem eru nú með 30% skattlagningu, þau lækka, margir bílar í þeim flokki lækka um 5%. Stór hluti þeirra bifreiða sem nú eru með 45% skattlagningu lækkar, mjög margir meðalstórir jeppar lækka um 10%. Má nefna gagnmerk ökutæki eins og Kia Sorrento og Hondu CR, Volvo XC60, Huyndai Santa Fe, Lexus og Land Rover Freelander. Ekki er síst ánægjulegt að rifja upp kynni við gamla góða Land Roverinn. Annars ætla ég nú ekki að fara að auglýsa einstakar bílategundir en þetta er bara nefnt til dæmis um að menn standa frammi fyrir fjölmörgum valkostum, í hverjum eru alveg eins möguleikar á því að endurnýja meðalstór ökutæki, þar með talin fjórhjóladrifin og þar með talda jeppa sem henta ágætlega til aksturs á vegum við vetraraðstæður. Hægt verður að fá bíl þar sem lækkun hefur orðið en ekki hækkun. Í þriðja lagi stendur auðvitað stór hluti ökutækjaflotans í stað. Mjög margir meðalstórir og stærri meðalstórir bílar koma út úr þessu á sléttu. Það eru fyrst og fremst nokkrar mjög stórar tegundir og eyðslufrekar, eða öllu heldur sem losa mikið, sem taka á sig hækkun.

Auðvitað verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við ætlum að þróa bílaflotann okkar í þessa átt og beita til þess skattalegum hvötum af þessu tagi hefur það áhrif. Öðruvísi er það ekki hægt. Ég minni á að þegar breytingar voru gerðar á bæði olíugjaldi og þungaskatti á miðju ári 2009 var reynt að mæta hagsmunum landsbyggðarinnar sérstaklega. Munurinn á milli skattlagningar á almenna flotanum og þessum stóru tækjum var aukinn gagngert til þess m.a. að koma í veg fyrir að þær hækkanir sem þá voru á bensín- og olíugjöldum og þungaskatti bitnuðu á flutningskostnaði langra flutningaleiða.

Önnur lönd þar sem er strjálbýli, ekki síður en hér á landi, hafa farið þessar leiðir og mér telst svo til að líklega 17 af um það bil 25 Vestur-Evrópulöndum hafi tekið upp skattlagningu sem með einhverjum hætti tekur mið af koltvísýringslosun ökutækis. Aðferðirnar eru vissulega dálítið mismunandi og kannski ekki auðveldar til samanburðar en með einum eða öðrum hætti á þetta það allt sammerkt að losun koldíoxíðs eða gróðurhúsalofttegunda er tekin sem einhvers konar andlag skattlagningar. Það má t.d. vísa bæði til Finnlands og Noregs í þeim efnum, þar hafa menn farið svipaðar leiðir og við ætlum að fara þannig að við erum ekki að finna upp hjólið.

Þetta er að sjálfsögðu veigamikill liður í því að framfylgja og hrinda í framkvæmd breytingum sem við þurfum að ráðast í á ýmsum sviðum ef við ætlum okkur að mæta þeim metnaðarfullu markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem við höfum lofast til að gera, samanber áætlun þar um. Það má segja að hér sjái stað eins af fyrstu stóru skrefunum í því að gera þær breytingar, t.d. í skattalegum efnum, sem eru nauðsynlegar að þessu leyti. Nema hvað við göngum mjög langt í því í raun og veru að hvetja til þess að umferðin þróist yfir í vistvæna orkugjafa með algeru skattfrelsi á slíkri umferð að heita má, þ.e. hún er undanþegin með öllu þeim tekjustofnum sem almennt standa undir kostnaði við umferðina, vegakerfið og uppbyggingu þess o.s.frv. Að sjálfsögðu er okkur öllum ljóst að til lengri tíma litið mun sú þróun ekki geta gengið óheft eða óbreytt. Smátt og smátt verður sá vaxandi hluti umferðarinnar sem vonandi nýtir sér á komandi árum umhverfisvæna orkugjafa að leggja eitthvað af mörkum til uppbyggingar samgöngukerfisins. En á meðan við hrindum þeirri þróun af stað og komum henni vel á veg er tvímælalaust réttlætanlegt og nauðsynlegt að stuðla að henni með þessum hætti. Þegar batnandi tímar fara í hönd og endurnýjun bifreiðaflotans fer af stað í auknum mæli á nýjan leik er mjög mikilvægt að þetta umhverfi liggi fyrir, menn viti að hverju þeir ganga og þróuninni sé stýrt eftir því sem kostur er í þessa átt.

Ég vil svo nefna varðandi þann bifreiðaflota sem til staðar er í landinu að meira er í vændum í þeim efnum. Ég vonast sömuleiðis til að geta kynnt skref sem gengur í sömu átt í frumvarpi sem kemur inn á borð þingmanna innan fárra daga og tengist möguleikum á að breyta að hluta til núverandi bílaflota í umhverfisvæna orkugjafa.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að mál þetta gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar ef ég veit rétt. Ég held að það hljóti að eiga að lenda þar, blessað málið.