139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[14:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki nein heilög tala eða nákvæm vísindi á bak við hana en í grunninn, ef ég veit rökin rétt, er það í fyrsta lagi þannig að þetta nægir öllum ódýrari og meðaldýrum bílum. Það eru fyrst og fremst mjög stór ökutæki sem þetta mundi þá hafa áhrif á. Það er líka rétt að hafa í huga að metanbílarnir nota gjarnan annað eldsneyti með, þeir eru flestir byggðir þannig að þeir eru ræstir á bensíni eða öðrum orkugjafa og nota það jöfnum höndum. Það er kannski að einhverju leyti sjónarmið að setja því skorður hversu langt er gengið í þessa átt.

Í þriðja lagi er ekkert launungarmál að menn horfa svolítið á flotann sem er til staðar í landinu. Menn hafa reynt að taka visst mið af því þegar þetta er útfært hver áhrifin af þessum skattalegu aðgerðum eru gagnvart innflutningi nýrra bíla versus sá floti sem er til staðar í landinu, þar á meðal í því samhengi að við viljum gjarnan að sú þróun fari af stað að honum verði breytt í einhverjum mæli yfir í það að vera knúinn umhverfisvænum orkugjöfum.

Loks er það þannig að það er fullt samkomulag um það milli fjármálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis þess vegna að ætlunin með þessum breytingum er ekki að ákveða það fyrir fram eða stýra því sérstaklega hvaða tegundir umhverfisvænna orkugjafa þróunin mun innleiða. Á þessu stigi málsins a.m.k. ber ekki að skilja það svo að þessar ívilnanir eða þetta þak á metan hafi nokkuð með það að gera hvort þróunin sé líkleg til að verða eða eigi að verða yfir í raforku eða rafknúna bíla, metanbíla eða vetnisbíla þess vegna eða hvað það er. Eins og ég skil þetta er vilji allra að það sé haft sem hlutlausast og almennt sé hvatt til þess að þróunin sé í þessa átt og (Forseti hringir.) hún fari síðan í þá farvegi sem henta og þróunin stýrir þeim í.