139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þróunin yfir í metan sem orkugjafa er mjög spennandi fyrir okkur. Þar getum við verið sjálfum okkur næg um eldsneyti í þó nokkrum mæli og erum það nú þegar. Ef ég man rétt dugar framleiðslan í Reykjavík, hvað heitir hann nú staðurinn við Gufunes, nei, Álfsnes, fyrir 4 þúsund bíla flota eða eitthvað svoleiðis. Ég held að ég hafi einhvern tímann heyrt þá tölu.

Akureyringar eru að fara af stað og olíufélögin eru að taka við sér með dreifingarstöðvar. Það er auðvitað mjög mikilvægt að skapa eftirspurnina, að stækka flotann sem aftur verður undirstaðan fyrir fleiri dreifistöðvar o.s.frv. Að sjálfsögðu eru möguleikar landsbyggðarinnar þarna til staðar. Jafnvel gætu bændur framleitt sitt eigið metangas í verulegum mæli úr haughúsum og þess vegna notað stærri bíla. Mér finnst alveg rök fyrir því að skoða það allt. Sem stendur er sá floti náttúrlega að langmestu leyti knúinn með dísli. Ef menn vilja sérstaklega taka tillit til þess held ég að menn ættu að hafa aðeins sjónir á hlutföllunum milli verðlagningar í bensíngjaldi (Forseti hringir.) og olíugjaldi.