139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í mörg horn að líta í þessu máli. Ég held að það sé kannski ekki alveg hægt að afgreiða þetta án þess að fara vel yfir hvaða áhrif þetta hefur. Eins og hæstv. fjármálaráðherra þekkir betur en flestir er landið stórt og veður eru með ýmsu móti. Þrátt fyrir að við höfum haft þá stefnu lengi að skattleggja miklu meira stærri og orkufrekari ökutæki og ágæt sátt verið um það er það samt svo, og hæstv. ráðherra þekkir það vel, að m.a. af öryggisástæðum hafa menn verið að nota stærri bíla og oft hefur munað litlu að illa færi ef menn hefðu ekki verið á ekki öruggum ökutækjum. Ég ætlaði hins vegar ekki að ræða það núna, við höfum nægan tíma til að fara yfir þetta mál.

Ég tek undir það að markmiðin eru í grunninn góð með frumvarpinu en ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í athugasemdir sem Samtök fatlaðra hafa komið með í sambandi við staflið m í 2. gr. frumvarpsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.“

Samtökin hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta muni hafa fyrir fatlaða sem eiga bíl og þetta muni stórauka kostnaðinn fyrir þá ef þetta fer óbreytt í gegnum þingið eins og þetta er núna.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnist um (Forseti hringir.) athugasemdir þessara samtaka.