139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú verð ég bara að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma til að skoða það sérstaklega. Ég verð bara að játa það að ég hef ekki forsendur til þess að meta hvort það sé ástæða til að óttast að þetta verði sérstaklega íþyngjandi fyrir þá, væntanlega vegna þess að sérútbúnir bílar væru stærri og eyðslufrekari eða losuðu meira. Að öðru leyti ætti það ekki að hafa áhrif. Þetta hefur engin áhrif á það fyrirkomulag sem í gildi er varðandi styrkina sem menn fá til að endurnýja sína bíla o.s.frv. Þetta er þá bara spurning um hvort breytingin er hlutlaus eða ekki hlutlaus að breyttu breytanda gagnvart þeim sem í hlut eiga. Sé það svo að þetta mundi leiða til einhverrar sérstakrar íþyngingar vegna samsetningar þess bílaflota sem fatlaðir þurfa að nota, sérútbúinna og þá kannski stærri bíla, treysti ég hv. þingnefnd til að skoða það. Ég hef ekki forsendur til að meta það á þessu stigi.

Auðvitað eru mjög margir að velta fyrir sér sinni útkomu úr þessum breytingum. Það gildir um landsbyggðina eða bændur, það gildir um þá sem hafa rekið bílaleigur, það gildir sjálfsagt um hópa eins og þessa, en það er náttúrlega erfitt að mæta því þannig að þetta hafi engin áhrif gagnvart einum eða neinum, enda mundu menn þá væntanlega missa marks með breytingarnar í heild sinni. Þetta er að mínu mati minni breyting en menn halda í byrjun, sérstaklega ef litið er aðeins lengra aftur í tímann og skoðað hvernig þessi gjaldflokkun var hér aðeins lengra til baka, þetta mjög óveruleg breyting miðað við það sem þá var við lýði um langt, langt árabil. Því var nokkuð breytt eins og kunnugt er og kannski höfum við síðustu árin einmitt ekki gert það sem almennt er þróunin, að hafa nægilegan skattalegan mun á milli sparneytinna og minna sparneytinna bíla. (Forseti hringir.) Það er því miður þannig. Við höfum kannski haft það hlutfallslega ódýrara en skynsamlegt er að fjárfesta í dýrum og eyðslufrekum ökutækjum.