139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að í raun og veru sé þetta meira og minna allt innifalið í þessu frumvarpi sem hv. þingmaður spyr um og nefnir auðvitað réttilega. Hann telur frumvarpið alls góðs maklegt að því tilskildu að kenningin um gróðurhúsaáhrifin sé rétt, sem ég held nú að sé og held að sé að verða svo yfirgnæfandi sannað að lítið þýði að þræta um það lengur. Ekki þarf annað en hoppa yfir til Grænlands til að sjá alveg stórfelldar breytingar sem hlýnun jarðar hefur í för með sér þar.

Varðandi núverandi flota hefur þetta í sjálfu sér ekki áhrif á hann nema í þeim takmarkaða mæli sem nemur bifreiðagjöldunum árlega. Þegar kemur að því að endurnýjun vex í bílaflotanum hefur það vissulega áhrif á söluverð þeirra bíla sem fyrir eru, það er öllum ljóst. Hér er verið að lækka þröskuldinn og auðvelda endurnýjun bílaflotans í sparneytnari og umhverfisvænni átt. Það er ekkert launungarmál að í þessu er fólgin stýring í þá veru, enda er það meginmarkmiðið að bifreiðaflotinn endurnýist í rétta átt út frá umhverfislegum sjónarmiðum.

Ég held að það þurfi varla frekari hvata varðandi t.d. metanið en þann að það er undanþegið skattlagningu. Íblöndunarefnin verða það sömuleiðis með þessu frumvarpi, þannig að ef menn blanda 10–15% í dísil af lífrænu eldsneyti er sá hlutinn undanþeginn skattlagningu. Það hefur ekki verið svo eins og ég fór yfir í framsögu minni. Í frumvarpinu er verið að reyna að ná utan um þessa hluti meira og minna í heild sinni, að ég tel, sem hv. þingmaður ræddi hér.